Deila þessari síðu
Matvælaráðherra Danmerkur, Rasmus Prehn, hefur skipað vinnuhóp sem er ætlað að leggja drög að merki sem segir til um kolefnisfótspor matvæla. Áður en árið er úti á hópurinn að skila tillögum til ráðherra um merki sem lýtur opinberu eftirliti og matvælaframleiðendum er frjálst að nota. Þetta kemur fram í Landbrugsavisen.
„Danmörk á formlega að verða fyrsta landið í heiminum til að taka merkingar í notkun þar sem neytendurnir geta séð kolefnisfótspor þeirra matavara sem þeir kaupa,“ segir Rasmus Prehn í tilkynningu til Ritzau fréttastofunnar.
„Þetta verður risastórt skref í þá átt að hjálpa neytendum að velja umhverfisvænni vörur sem margir vilja gera“.
Sex af tíu Dönum segjast í skoðanakönnunum gjarnan vilja borða umhverfisvænni mat. Þrír af fjórum segja að það sé erfitt að átta sig á kolefnisfótspori matvara. Merkingar á matvælum hafa mikið að segja þegar fólk ákveður hvað endar í innkaupakörfunni. 86% neytenda segjast byggja kaupákvarðanir á upplýsingum sem þeir fá frá ýmsum merkingum á matvörum.
Kolefnismerki, sem lýtur opinberu eftirliti, er ætlað að sameina framleiðendur undir einn hatt og byggja upp traust á markaði.
Unnið í náinni samvinnu hagaðila
Vinnuhópur matvælaráðherra samanstendur af stórfyrirtækjum eins og Salling Group, COOP ásamt Dönsku neytendasamtökunum, bænda- og framleiðendasamtökunum Landbrug & födevarer og Samtökum atvinnurekenda. Hópnum er ætlað að gera tillögur um það hvernig kolefnisfótsporinu er komið á framfæri, hvernig það er reiknað og hversu miklar upplýsingar það feli í sér. Þá á hópurinn að koma með útlitstillögur að merkinu sjálfu. Samkvæmt tilkynningu frá danska matvælaráðuneytinu fær hópurinn 9 milljónir danskar krónur [rúmlega 170 milljónir íslenskra króna] til að þróa merkið og koma með tillögur að regluverki og útliti þess.
Merkið getur breytt neysluvenjum fólks
Kolefnismerki á matvörur mun hafa mikil áhrif að mati danska matvælaráðherrans. „Við höfum upplýsingar um að meðal-Dani á aldrinum 6-64 ára getur minnkað sitt kolefnisfótspor á milli 31-45% með því að kaupa loftslagsvænni matvörur. Það munar verulega um það,“ segir Rasmus Prehn.
Í byrjun á merkið að vera valkvætt fyrir framleiðendur. „Það eru margir framleiðendur sem vilja vera „grænni“ og markaðsfæra sínar vörur sem loftslagsvænar. Þeir geta notað merkið ef þeir standa undir þeim kröfum sem gerðar eru. Ef fyrirtækin vilja ekki taka þátt og nota loftslagsmerkingar þá er það val sem þau ákveða sjálf. Neytendur geta þá séð hverjir eru með loftslagsmerkið og hverjir ekki. Merkið hefur sitt að að segja um samkeppnisforskot fyrirtækja,“ segir Rasmus.
Vildu gera opinberan gagnagrunn
Dönsku atvinnurekendasamtökin „Dansk Erhverv“ hafa lýst ánægju sinni með framtakið og fagna langþráðum loftslagsmerkingum á matvæli. Þar á bæ er haft eftir markaðsstjóra þeirra, Henrik Hyltoft, að samtökin hafi áður lagt til að gerður yrði gagnagrunnur um kolefnisfótspor matvæla sem merkingar yrðu byggðar á. Slíkur gagnagrunnur ætti að innihalda opinberar upplýsingar um fótsporið og vera aðgengilegur bæði fyrir neytendur og aðra sem kaupa matvæli.
Dansk Erhverv leggur til að merkið eigi eingöngu að vísa í loftslagsþætti – og þar með kolefnisfótsporið. Ekki taka aðra umhverfisþætti inn í reikninginn og það eigi jafnframt að vera „valkvætt og jákvætt“.
Danir vilja vera á undan ESB
Evrópusambandið hefur látið í veðri vaka að þar sé unnið að loftslagsmerkingum á matvæli. Það á hins vegar ekki að taka í notkun fyrr en árið 2024. Rasmus Prehn, matvælaráðherra Danmerkur, vill vera á undan sambandinu.
„Fyrir okkur er mikilvægt að vera fyrri til. Ef Danmörk verður fyrsta landið í heiminum til að taka upp kolefnismerkingar á matvæli er það skýr leið til að sýna umheiminum að við viljum vera í fremstu röð þegar kemur að umhverfismálum.“
Rasmus telur jafnvel að ESB-merkið gæti orðið fyrir áhrifum af danska merkinu og útilokar ekki samstarf. „Ef ESB kemur fram með merki sem stendur undir okkar væntingum og kröfum þá munum við vinna með þeim,“ segir hann.
Hér á Íslandi er nýlega búið að kynna til sögunnar upprunamerki á íslenskar matvörur. Í tengslum við það hafa menn rætt um að merkingar á kolefnisfótspori séu næsta skref en engin vinna er hafin í þeim efnum enn sem komið er samkvæmt upplýsingum Matlands.