Deila þessari síðu
Kæru lesendur. Ísland er sannkallað matland. Við eigum gjöful fiskimið og stór landsvæði þar sem hægt er að rækta nytjajurtir og ala búfénað. Á bilinu 20-25 þúsund manns starfa í atvinnugreinum sem tengjast matvælum með einum eða öðrum hætti. Ferðaþjónustan byggir að stórum hluta á því að metta ferðamenn frá degi til dags, iðnaðurinn er margbreytilegur, sjávarútvegurinn halar inn gjaldeyri og landbúnaðurinn tryggir líf og störf í hinum dreifðu byggðum. Þessum atvinnugreinum ætlum við hjá Matlandi að sinna af alúð.
Fréttir og fjölbreytt umfjöllun um mat og matvælageirann
Við segjum fréttir og birtum umfjallanir sem hafa snertifleti við mat og matvælaframleiðslu. Á vefsíðunni matland.is geta lesendur gengið að fjölbreyttu efni vísu. Auk þeirra sem starfa í matvælageiranum þá viljum við höfða til alls áhugafólks um mat og matarmenningu. Markmið okkar er líka að vera með tíð og tíma upplýsingaveita um loftslagsmál og matvælaframleiðslu. Þeir sem vilja birta greinar um matvælatengd málefni fá að sjálfsögðu sitt pláss á Matlandi.
Kauptu matinn á Matlandi
Nýlunda sem við kynnum hér á Matlandi á næstu vikum er vefverslun með upprunamerktar matvörur og fleiri athyglisverða hluti sem tengjast mat og matvælaframleiðslu. Sérstaðan felst einkum í því að við getum gefið kaupendum meiri upplýsingar en gengur og gerist. Við seljum matvörur sem hægt er að rekja til frumframleiðenda og segjum sögurnar af þeim í miðlinum.
Þú átt rétt á að vita hvar og hvernig maturinn þinn er framleiddur.
Það er einfalt að panta hjá okkur og gera upp á vefnum. Boðið er upp á heimsendingu á höfuðborgarsvæðinu og hefðbundna vöruflutningaþjónustu Samskipa þar fyrir utan. Þeir kaupendur, sem vilja, geta nálgast sínar vörur í verslun Pylsumeistarans á Hrísateig í Reykjavík.
Við treystum á lesendur
Tekjugrundvöllur fjölmiðla hefur snarbreyst á síðustu árum. Með tilkomu netsins, breyttrar neysluhegðunar lesenda og hækkandi kostnaðar við dagblaðaprentun og dreifingu hefur landslagið tekið stakkaskiptum. Matland er nýr miðill sem treystir á að lesendur séu tilbúnir að greiða sanngjarnt gjald fyrir gott lesefni. Við gefum því lesendum og fyrirtækjum kost á að styrkja fjölmiðilinn með mánaðarlegu framlagi að eigin vali. Þeir fjármunir sem fást í gegnum styrki frá lesendum verða nýttir til þess að framleiða meira og betra efni. Velunnarar og áhangendur miðilsins fá reglulega sent fréttabréf í tölvupósti með ýmsum gagnlegum upplýsingum. Matland mun líka bjóða upp á hefðbundnar vefauglýsingar sem við hvetjum fyrirtæki í matvælageiranum til þess að nýta sér.
Útgáfufélag Matlands heitir Matfélagið ehf. Þrír eigendur eru á bakvið það, þeir Hörður Kristbjörnsson, grafískur hönnuður, Hilmar Steinn Grétarsson, framkvæmdastjóri Grapevine, og undirritaður, Tjörvi Bjarnason, sem stýrir daglegum rekstri Matlands. Kári Gunnlaugsson er í hlutastarfi sem blaðamaður auk þess sem tæplega tuttugu verktakar sjá miðlinum fyrir fjölbreyttu efni.
Takk!
Að lokum viljum við, sem stöndum að útgáfunni, þakka öllu því góða fólki sem hefur komið að uppbyggingu Matlands. Við eigendurnir höfum þegið ráð úr mörgum áttum og finnum fyrir velvilja víða. Ómetanlegir samstarfsaðilar og lausapennar hafa gengið til liðs við okkur sem við þökkum sérstaklega.
Matland er komið í loftið og ætlar sér að vaxa hægt en örugglega með aðstoð ykkar.