Deila þessari síðu
Nýtt fyrirtæki í matvælaiðnaði, Smjer ehf., hefur sett á markaðinn nýstárlega béarnaise-sósu þar sem notandinn gerir ekki annað en að bræða smjör með öllum innihaldsefnum og bæta við 5-6 þeyttum eggjarauðum. Frumkvöðlarnir segja að margir veigri sér við að búa til ekta klassíska béarnaise-sósu og Smjer-sósan sé svar við því.
„Mörgum vex í augum að laga béarnaise sósu frá grunni og hafa því látið sér líka eftirlíkingar af béarnaise sósu, en með tilkomu SMJER Béarnaise er það liðin tíð, nú geta allir lagað klassíska alvöru béarnaise-sósu í einungis þremur skrefum,“ segir á vef Smjer.
Leiðbeiningarnar eru einfaldar
1. Þeytið eggjarauður þar til þær eru léttar og ljósar. Nota skal 90 g á móti innihaldi pakkans.
2.Bræðið SMJERIÐ við meðalhita, u.þ.b. 70 gráður. Hellið SMJERINU varlega í mjórri bunu saman við eggjarauðurnar meðan haldið er áfram að þeyta.
3. Varist að hella SMJERINU of hratt saman við eggjarauðurnar svo að sósan skilji sig ekki.
Ef sósan er of þykk þá má þynna hana aðeins með volgu vatni.
Portó er stútfull af sveppum
Önnur eggjasósa er væntanleg á markaðinn en það er sósan Portó sem er samsett úr íslenskum portóbellósveppum frá Flúðasveppum, smjöri og púrtvíni. Eins og með béarnaise-sósuna þarf eingöngu að bæta við þeyttum eggjarauðum. Sósan er í 300 g pakka og dugar fyrir 6 manns.
Það eru þeir Guðjón Þór Guðmundsson matreiðslumaður og Hrafnkell Guðnason viðskiptafræðingur sem standa að baki Smjer-sósunum. Þeir hafa nú þegar dreift béarnaise-sósunni í valdar verslarnir en Portó-sósan er væntanleg á næstu dögum. Pylsumeistarinn sér um framleiðslu á sósum Smjer ehf.
Á vefsíðu smjer.is er hægt að fræðast nánar um vörurnar og sjá kennslu- og kynningarmyndbönd úr sósugerðinni.
Matland býður upp á Portó-sósuna í jólakassanum „Brandajól“.