Deila þessari síðu
Hakk er ódýrt og gott hráefni og kemur sér alltaf vel að eiga í frysti. Hægt er að töfra fram allskyns góðan og fjölbreyttan mat með hakki og gott að grípa til þegar maður vill hafa eitthvað fljótlegt og ljúffengt í matinn. Til dæmis kjötbollur, lasanja, allskyns grýtur, hamborgara, svikinn héra og jafnvel í súpur svo eitthvað sé nefnt. Samt sem áður er ég örugglega ekki ein um að lenda í því að vera hugmyndasnauð um hvað ég get gert til tilbreytingar þegar kemur að gamla góða hakkinu.
Ég gríp oft í þessa uppskrift og hún slær iðulega í gegn á mínu heimili og þegar ég elda í vinnunni. Þá hef ég stundum stækkað uppskriftina og átt tilbúinn óeldaðan hleif í frosti sem hægt er að taka út um morguninn eða kvöldið áður. Þá þarf bara að skella hleifinum inn í ofn og ég get slakað á, á meðan maturinn mallar í ofninum.
Vinnum okkur í haginn
Ég get ekki lýst því hversu gott það er að geta unnið sér í haginn og eiga tilbúinn hleif, því öll eigum við daga þar sem þreytan eftir vinnudaginn tekur völdin. Tilhugsunin við það að eiga eftir að elda kvöldmat ber mann ofurliði og maður endar á því að kaupa eitthvað tilbúið, sem bitnar á buddunni og einnig á buxnastrengnum!
Ef fólk hefur færi á, þá mæli ég alltaf með að útbúa auka máltíð þegar maður er í stuði og hefur tíma.
Það er jafnvel hægt að nota sömu uppskrift og þessa og gera kjötbollur en sleppa þá fyllingunni og vökvanum sem er settur í botninn á mótinu. Hægt er að brytja beikonið smátt og setja út í hakkið, gera kjötbollur og elda á hefðbundinn hátt eða í ofni, skipta svo bollunum í poka og frysta.
Að eiga tilbúinn mat í frysti er ólýsanlega þægilegt á letidögum. Þessi fyllti kjöthleifur er engu síðri en góð sunnudagssteik. Uppskriftin hér er fyrir einn hleif.
-
Laxasteikur – lausfrystir laxabitar úr landeldi4.460 kr.
-
Saltað hrossakjöt frá Hellu2.315 kr. – 2.881 kr.
Hráefni
1 kg hakk. Ég nota nautahakk, en einnig er gott að blanda saman öðru hakki eða nota lamba- eða kindahakk sem einnig er gott.
1-2 gulir laukar, fer eftir stærð, og saxaðir smátt
3-4 hvítlauksrif, fínsöxuð
1 dl gott brauðrasp
½ – 1 dl hveiti
1 ½ dl rjómi
1 egg
2 msk Worcestershire sósa
1 ½ tsk gróft Dijon sinnep
2 tsk góð kryddblanda, t.d. heitt pizzakrydd
1 msk nautakraftur
2 tsk salt
1-2 tsk pipar eftir smekk
Kryddjurtir eftir smekk eða það sem er við höndina hverju sinni. Ég nota þurrkaða steinselju, basiliku, graslauk og oregano, 1 tsk af hverri kryddjurt.
U.þ.b. 1 pakki af góðu beikoni
1 pipar rjómaostur
½ skinku- og ½ beikon smurostur, hrært saman
Góð tómatsósa til penslunar, ég nota Felix tómatsósu með steviu.
Aðferð
Blandið öllu, nema rjómaosti, smurosti, tómatsósu og beikoninu, saman í hrærivél ef hún er til staðar, annars er það bara handavinnan góða.
Setjið deigið í létt smurt, nokkuð stórt eldfast mót, og búið til lengju og smá holu í miðjuna eftir endilöngum hleifnum fyrir miðju en ekki alla leið út til endanna eins og sést á myndinni svo að fyllingin leki ekki öll úr svo auðveldara sé að loka hleifnum.
Næst er fyllingunni smurt í miðjuna nokkuð jafnt og hleifnum lokað með því að draga hliðarnar saman og loka eins vel og hægt er og slétta vel úr.
Þá er tómatsósu penslað nokkuð rausnarlega yfir allan hleifinn og að lokum er honum vafið þétt inn í beikonið.
Setjið nautakraft í heitt vatn eins og leiðbeiningar segja um, um 1 teningur fyrir hálfan líter af vatni, ásamt 50 g af smjöri. Þessu er svo hellt meðfram hleifnum í eldfasta mótið og helt aðeins yfir líka.
Hleifurinn er settur inn í ofn við 180°C í um það bil 50-60 mín. Gott er að hella vökvanum yfir hleifinn af og til á með hann er í ofninum.
Eitt sem mér finnst gott að gera þegar ég þarf að elda eitthvað í lengri tíma í ofninum með t.d. beikoni ofan á, er að byrja á því að hafa álpappír yfir svo að beikonið brenni ekki þegar maturinn er tilbúinn. Álpappírinn er tekinn þegar þegar það á eftir að elda hleifinn í ca. 15-20 inni í ofni.
Berið fram með góðri rjómasósu en upplagt er að nota vökvann úr eldfasta mótinu sem sósugrunn. Þá er kjörið að bera fram með hleifnum, kartöflur eða kartöflumús og annað hefðbundið sunnudagsmeðlæti, eins og grænar baunir, rauðkál eða það sem hugurinn girnist.
-
Hrossabjúgu frá Hellu – 2 stk.4.210 kr.