Deila þessari síðu
Það hafa örugglega flestir sem búsettir eru á Íslandi gætt sér á brauðtertum í einhverri veislunni. Brauðtertan er sögð eiga uppruna sinn að rekja til Svíþjóðar þar sem hún er afar vinsæl en einnig þekkist til hennar í Finnlandi og Eystrasaltslöndunum þar sem þær eru fylltar með ýmsu gúmmelaði. En undirstaðan er yfirleitt sú sama og við þekkjum hana.
Hver elskar ekki risastóra fallega skreytta samloku?
Ég tók að mér að gera eina slíka fyrir útskrift um daginn með rækjusalati og deili uppskriftinni hér. Ég ákvað að breyta aðeins út frá hinu klassíska rækjusalati og útkoman var hreint út sagt æðislegt salat sem ég á klárlega alltaf eftir að nota framvegis.
Þessi uppskrift miðast við þriggja laga tertu og þrjár sneiðar á breidd.
Rækjusalat Laufeyjar
- 500 g góðar rækjur, afþýddar og þerraðar vel
- 350 g beikon
- 16 harðsoðin egg
- 1 paprika, smátt söxuð (ég var með appelsínugula)
- 1 miðlungsrautt chilli, smátt saxað
- 2 msk þurrkaður eða ferskur graslaukur
- 1 rauðlaukur, smátt saxaður
- 2 msk grófkorna Dijon sinnep
- 500 g gott majónes
- 2 ½ tsk Aromat
- 2 tsk dill, þurrkað
- 1 tsk salt
- 1 tsk Chili explosion
- 100 ml léttþeyttur rjómi
Aðferð
Byrjið á að afþýða rækjurnar og þerra vel, því annars verður salatið þunnt og ólystugt. Geymið til hliðar meðan restin er græjuð.
Harðsjóðið eggin í saltvatni og smá matarsóda, það auðveldar að ná skurninni af. Kælið þau svo vel í rennandi vatni í nokkar mínútur. Takið svo utan af og bútið nokkuð smátt niður í eggjaskera og setjið í stóra skál. Steikið beikonið nokkuð stökkt og látið kólna á eldhúspappír og bútið svo niður í litla bita.
Skerið allt grænmetið niður smátt og og setjið saman við rækjurnar ásamt eggjunum og beikoninu. Kryddið og blandið vel saman.
Blandið næst majónesi og hrærið vel. Léttþeytið rjómann og hrærið hann svo saman við salatið og smakkið til.
Það þarf um 1 ½ pakka af brauðtertubrauði í þessa tertu, ég geymi afganginn af brauðinu ásamt afskurðinum og set í frost. Það geri ég reyndar við alla brauðmetisafganga og geri svo heitan brauðbúðing í eftirrétt sem er himneskur.
Púslið tertunni saman, 3 brauð í botninn, um 1 cm þykkt lag af salati. Ef það er nógu mikið salat fyrir fjórar hæðir þá má það alveg líka.
Þegar þetta er búið þá smyr ég alla tertuna með majónesblöndu svo brauðið þorni ekki.
Majónesblanda utan á brauðtertuna
- 200 g majónes
- ½ dolla sýrður rjómi (ég var með 36%)
- ½ tsk salt
- ½ tsk Aromat
- 1 msk graslaukur (ég var með þurrkaðan)
- 1 tsk sítrónusafi
- 1 tsk dill (ég var með þurrkað).
Majónesblöndunni er hrært vel saman og smurð jafnt yfir tertuna allan hringinn.
Þetta geri ég yfirleitt deginum áður en kakan er borin fram svo tertan fái að jafna sig og draga í sig bragðið. Þá set ég plastfilmu yfir og inn í kæli.
Svo er ekkert eftir nema að skreyta herlegheitin og hafa gaman af! Leyfa listamanninum í sér að koma út og leika sér.
-
Nautagúllas af Angus frá Stóra-Ármóti – 3 x 500 g5.985 kr.
-
Íslenskar rækjur – innfjarðarrækja frá Vestfjörðum – 1 kg2.980 kr.
-
Grænmeti í áskrift –Frá: 4.995 kr. / á mánuði
-
Kofareyktur lax – heilt eða hálft flak4.080 kr. – 7.580 kr.