Deila þessari síðu
Það er svo margt sem hægt er að elda úr kjúklingi og maður þarf ekki að vera útlærður meistarakokkur til galdra fram ýmsa bragðgóða rétti. Ég er svo heppin að geta keypt kjúkling í kílóavís og er því alltaf með fullt af kjúklingi í kistunni til að grípa í.
Kjúklingasnitsel er eitthvað sem ég geri reglulega, því það er svo mikið suðað um það á mínu heimili. Hver elskar ekki mat sem er löðraður í raspi? Ég bjó til þessa uppskrift fyrir tveimur árum og ef ég ætti hundraðkall fyrir hvert skipti sem ég hef verið beðin um uppskriftina gæti ég hætt að vinna… í allavega einn dag eða svo.
Ég geri alltaf stóran skammt því það er æðislegt að eiga afganga daginn eftir (þ.e. ef fjölskyldan getur haft hemil á sér sem er nú ekki alltaf auðvelt). Oftast þegar ég elda kjúklingasnitsel þá geri ég brúna sósu og kartöflur og tilheyrandi með. Daginn eftir nýti ég svo afgangana í eitthvað annað, eins og kjúklingaborgara, pítur, tortillur og fleira. Ef ég er heppin þá er kannski ein til tvær sneiðar sem ég get nýtt fyrir mig (og manninn líka ef ég tími) í salat, núðlur eða pastarétti.
Það eru margir möguleikar þegar kjúklingur er annars vegar. Er ekki upplagt að slá tvær flugur í einu höggi og elda fyrir allt að þrjá daga í einu en aldrei sama réttinn? Hversu mikil snilld er það?!
Kjúklingasnitsel (stór uppskrift fyrir 8 manns)
2 kg kjúklingabringur
1 ½ bolli súrmjólk eða AB mjólk
½ bolli sætt franskt sinnep (t.d. þetta danska í gulu flöskunum með svarta lokinu)
2 tsk Dijon hunangs-sinnep
2 ½ tsk karrýduft
2 tsk salt
2 tsk pipar
2 tsk ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum (eða bara hvítlauksduft)
2 msk þurrkuð steinselja
2 tsk paprikukrydd
Byrjið á að snyrta bringurnar ef þess þarf. Skiptið hverri bringu í tvo helminga, jafnvel 3 hluta ef þetta eru mjög stórar bringur.
Berjið bringubitana létt með kjöthamri, ættu að vera um 1-1 ½ cm á þykkt.
Mér finnst best að setja bringurnar inn í glæran plastpoka og berja svo, mun snyrtilegra svoleiðis.
Setjið bringurnar í stóra skál og blandið vel hinum hráefnunum saman við og setjið plast yfir og inn í kæli í allavega eina klukkustund. Því lengur því betra, yfir nótt væri æði.
Því næst er að græja hjúpinn utan um.
Hveitihjúpur:
3 bollar hveiti
2 tsk karrý
1 tsk cayenne pipar
1 ½ tsk ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum
2 ½ tsk aromat
1 ½ tsk salt
1 ½ pipar
1 msk steinselja þurrkuð
1 ½ dill þurrkað
1 ½ basilika þurrkuð.
Blanda vel saman í góðri skál eða fati.
Eggjablanda:
8 egg
4 dl mjólk
1 dl sætt sinnep (þetta danska)
2 tsk Dijon hunangs-sinnep
2 tsk basilika þurrkuð
2 tsk dill þurrkað
2 tsk steinselja þurrkuð
2 tsk salt
2 tsk pipar
2 tsk aromat
Hræra vel saman í góðri skál eða fati.
Rasphjúpur:
6 bollar brauðrasp (Ég nota alltaf japanska Panko raspinn og 1-2 bolla venjulegt á móti til að fá skemmtilegri lit á raspinn).
4 tsk Aromat krydd
3 tsk Eðal kjúklingakrydd frá Pottagöldrum eða annað sambærilegt og gott kjúklingakrydd
2 tsk salt
2 tsk pipar
2 msk steinselja þurrkuð
2 msk basillika þurrkuð
2 tsk dill þurrkað
2 tsk paprikukrydd
Blanda vel saman og best að hafa góð ílát.
Takið hvern bringubita fyrir sig og sláið mestu marineringuna af.
Byrjið á að velta bitanum upp úr hveitinu, þar næst dýfið í eggjahræruna og endið á raspinum. Pressið vel í raspinn. Endurtakið þar til allar bringurnar eru búnar.
Hitið pönnu þannig hún sé rétt rúmlega miðlungs heit. Setjið ágætt magn af steikingarolíu, ekkert vera að spara hana.
Steikið snitselið í um 3 mínútur á hvorri hlið.
Þar sem þetta er mikið magn, þá finnst mér best að skipta um olíu inn á milli. Svo er um að gera að leggja bitana á ofnplötu með eldhúspappír undir.
Ég hef líka notað þessar blöndur fyrir fisk í raspi með mjög góðum árangri.
Snitselið bar ég fram með brúnni rjómasósu, kartöflum, grænum baunum, heimagerðum rauðbeðum og pikkluðum rauðlauk.
Svo eru það aukaréttirnir fjórir. Þið sjáið á meðfylgjandi myndum að það er ýmislegt hægt til að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi þó hráefnið sé það sama.
Kjúklingaborgari með grænmeti
Fyllt tortilla með kjúkling og grænmeti
Ramen núðlur með kjúklingi, linsoðnu eggi og grænmeti
Einfalt og fljótlegt kjúklingasalat
Má bjóða þér að kaupa kjúklingabringur frá bændunum á Reykjabúinu sem henta í þessa uppskrift? Jafnvel flugbeittan kokkahníf með?