Deila þessari síðu
Nýr rjómaís er væntanlegur á markað frá Fjölskyldubúinu ehf. í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem á og rekur mjólkurvinnsluna Hreppamjólk. Fyrir eru ýmsar vörur frá Hreppamjólk á markaðnum en það vakti mikla athygli fyrr á árinu þegar fyrirtækið bauð upp á mjólk í lausu máli í verslun Krónunnar í Lindum í Kópavogi.
Ísinn frá Hreppamjólk verður framleiddur hjá Kjörís í Hveragerði úr rjóma frá kúabúinu í Gunnbjarnarholti. Ísinn er sérstakur fyrir þær sakir að hann er með hátt fituinnihald og því sérlega saðsamur og bragðgóður. Umbúðirnar eru litlar, einungis 125 ml, sem er hentugur skammtur fyrir einn og hentar til dæmis vel sem eftirmatur.
Landsmótsgestir fá ís og jógúrtskálar
Ísinn er til sölu þessa dagana á Landsmóti hestamanna á Gaddstaðaflötum þar sem Þórhildur Arnarsdóttir kynnir gestum aðrar vörur Hreppamjólkur.
„Ég er að kynna mjólkina okkar sem er ófitusprengd en gerilsneydd. Hún er til sölu í nokkrum verslunum og í sjálfsala í Krónunni í Lindum. Svo er ég að gera jógúrtskálar úr Hreppajógúrtinni okkar og að kynna nýja vanilluísinn. Við erum líka með ískaffi og Hreppó-drykki sem eru unnir úr undanrennu og eru með mismunandi bragði,“ segir Þórhildur.
Jógúrtin er hrein, bökuð og ófitusprengd og því er þunnt rjómalag ofan á vörunni sem gefur henni milt og gott bragð. Bakaða Hreppajógúrt er hægt að borða eina og sér en tilvalið er að bragðbæta hana t.d. með ristuðum möndlum, hunangi og berjum eða því sem hugurinn girnist.
Bændurnir í Gunnbjarnarholti vilja selja mjólkurvörur beint til neytenda
Á vef Hreppamjólkur segir að eigendur fjölskyldubúsins í Gunnbjarnarholti vilji færa mjólk og mjólkurvörur beint til neytenda, upprunamerktar og rekjanlegar beint til búsins.
„Það styrkir tengingu milli dreifbýlis og þéttbýlis og von okkar er sú að viðskiptavinir okkar kunni að meta það.“
Gunnbjarnarholt er meðal stærstu kúabúa á landinu en þar eru um 250 mjólkandi kýr og annað eins af geldneytum.
Mjólkurvörurnar frá Gunnbjarnarholti eru fáanlegar í mörgum verslunum Krónunnar, Me & Mu á Garðatorgi, Litlu bændabúðinni á Flúðum og í verslun Landstólpa í Gunnbjarnarholti.