Deila þessari síðu
Lambalærissneiðar eru algjör herramannsmatur og hægt að útbúa á marga vegu, steiktar, grillaðar, í raspi og pottrétti svo eitthvað sé nefnt. Þær eru fínasta tilbreyting frá hinu hefðbundna heileldaða lambalæri. Ég ákvað að prufa að elda þær á öðruvísi hátt en ég er vön og ég get alveg sagt að það kom ljómandi vel út. Ég mun klárlega gera þessa uppskrift aftur.
Eftirfarandi uppskrift er fyrir 5-6 manns, fer eftir stærð á lærissneiðum. Ekkert mál að minnka eða stækka uppskriftina eftir þörfum.
Hráefni
8 góðar lærissneiðar
250 gr hreinsaðar gulrætur, skornar í grófa bita
2 box sveppir skornir í tvennt (ef þeir eru stórir, skerið þá í 3-4 bita)
150 g seller, skorið gróft
2 lítil epli, skorin gróft
2 rauðlaukar, gróft skornir
4-6 hvítlauksrif, marin og skorin í sneiðar
1 dós niðursoðnir cherry-tómatar í dós
3-4 msk tómatpúrra
1 stór dós malt (500 ml)
1 tsk saxað rósmarín, þurrkað
1 tsk timjan
1 nautakraftsteningur
Salt og pipar
Smjör/olía til að steikja
Smá hveiti
Aðferð
Byrjið á að grófskera grænmetið. Steikið sveppi á pönnu upp úr smá smjöri og olíu, saltið og piprið, í nokkrar mín og takið frá.
Þar næst steikið restina af grænmetinu á sama hátt ásamt salti, pipar, rósmarín og timjan þar til það byrjar að mýkjast, um 10 mín. Takið grænmetið af og geymið til hliðar.
Þerrið kjötið og veltið upp úr hveiti og kryddið með salti og pipar. Léttsteikið á heitri pönnu upp úr olíu eða smjöri eða bland af hvor tveggja, í um 2 mínútur á hvorri hlið. Takið frá. Skolið pönnuna ef þess þarf.
Bræðið smá smjörklípu á pönnunni eða í potti, rúmlega matskeið og hrærið 1 msk af hveiti saman við. Hellið cherry tómötunum út í og hrærið upp ásamt tómatpúrrunni.
Setjið grænmetið út í og blandið saman og hellið svo maltinu saman við ásamt nautakrafti. Saltið og piprið eftir smekk. Leyfið að malla í nokkrar mínútur þar til sósan byrjar aðeins að þykkna.
Raðið í pott með loki (sem má fara í ofn) á eftirfarandi hátt:
- Setjið sósu og grænmeti í botninn
- Raðið lærisneiðum ofan á
- Endurtakið og endið á að hella restinni af sósunni og grænmetinu yfir og lokið.
Setjið inn í heitan ofn við um það bil 160°C og leyfið að malla í 1 ½ til 2 klukkutíma.
Kartöflumús og snittubrauð
Með þessu bar ég fram heimagerða kartöflumús úr bökunarkartöflum og sætri kartöflu, sem ég hrærði með smá rjóma, smjöri, slettu af sýrðum rjóma, grófu Dijon-sinnepi. Saltið og piprið eftir smekk.
Gott að hafa snittubrauð með.
-
Reykt ýsa – roðlaus í bitum – 1 kg4.170 kr.
-
Grænmeti í áskrift –Frá: 4.995 kr. / á mánuði