Deila þessari síðu
Fiskur er það hráefni sem ég fæ aldrei nóg af. Gæti eflaust borðað hann upp á hvern dag ef ég hefði færi á því. Eins er það með allmarga sem ég elda fyrir í vinnunni hjá mér enda flest þeirra alin upp á fiski frá blautu barnsbeini eins og svo margir hér á landi.
Þvílíkt hvað við erum heppin með fiskinn okkar!
-
Hornfirskar kartöflur – Helga – 5 kg2.540 kr.
-
Reykt ýsa – roðlaus í bitum – 1 kg4.170 kr.
Í minni vinnu er fiskur þrisvar í viku, þannig við þurfum að vera dugleg við að breyta til með fiskrétti svo maturinn verði fjölbreyttur og góður. Það eru ófáir fiskréttirnir sem ég hef kokkað í gegnum árin án þess að skrifa niður eitt stakt hráefni til að muna þar til seinna. En aldrei þessu vant ákvað ég að skrifa niður eina uppskrift, svona fyrst ég mundi eftir því! Þessi er hrikalega einfaldur og mjög bragðgóður.
Athugið að meðfylgjandi myndir eru úr eldamennsku fyrir stórt mötuneyti – en uppskriftin er miðuð við 4-6 manns.
Fiskur í karrýrjómasósu fyrir 4-6 svanga munna
1,5 kg þorskur eða annar hvítur fiskur
1 laukur
1 græn paprika
1 rauð paprika
1 epli (ég var með rautt við hendina, en má nota hvernig sem er)
½ pakkning af Camembert smurosti
Ein pakkning rjómaostur með svörtum pipar
½ dolla sýrður rjómi (ég var með 18%)
½ líter rjómi
1 ½ tsk karrýduft
1 tsk salt
1 tsk svartur pipar
1 tsk hvítlauksduft
1 ½ tsk dill (ég notaði þurrkað)
½ msk kjúklingakraftur
Aðferð
Skerið fiskinn í hæfilega bita og geymið til hliðar. Skerið grænmetið nokkuð smátt. Bræðið smjörklípu í potti eða notið bara smá olíu og steikið grænmetið þar til það byrjar að mýkjast aðeins. Bætið þá kryddinu saman við og steikið áfram í augnablik en hrærið í á meðan svo að karrýið brenni ekki. Bætið svo restinni út í og hrærið þar til allt er uppleyst og samblandað. Smakkið til ef þess þarf.
Smyrjið ágætlega stórt eldfast mót og setjið botnfylli af sósu í það.
Raðið fiskbitunum í formið og hellið sósunni og grænmetinu yfir fiskinn þannig að hún þeki allan fiskinn.
Bakið í ofni við 170°C í um það bil 30 mínútur. Gott að bera fram með kartöflum eða hrísgrjónum, salati og nýju rúgbrauði með miklu smjöri.
-
Grænmeti í áskrift –Frá: 4.995 kr. / á mánuði