Deila þessari síðu
Íslendingar hafa frá örófi alda borðað hrossakjöt þó þjóðin skiptist í tvennt þegar hrossakjötsát er annars vegar: þeir sem snæða hrossakjöt og þeir sem láta það ekki inn fyrir sínar varir. Í seinni tíð hefur hrossakjöt ekki alltaf verið fáanlegt í verslunum og það er mjög lítill hluti af heildarkjötneyslu okkar. Þjóðir eins og Ítalir og Frakkar eru hins vegar duglegir að borða hrossakjöt og þaðan er eftirfarandi uppskrift fengin. Það eru semsagt til fleiri leiðir en að sjóða saltað hrossakjöt!
Við ætlum að gera pastaskeljar, fylltar með söltuðu hrossakjöti, ricotta-osti og spínati og bakaðar í hvítlauks-tómatsósu. Bragðgóður og eftirminnilegur réttur sem engan svíkur.
Saltað hrossakjöt: Frönsk-ítölsk uppskrift að kvöldverði fyrir 4
Áhöld
1 pottur fyrir kjöt, lauk
1 pottur fyrir pastaskeljar
1 stór panna með loki til að steikja hvítlauk, tómatsósu og spínat
1 eldfast mót fyrir 20 pastaskeljar
Hráefni
20 Conchiglione Pastaskeljar (stórar skeljar 4-5 cm að stærð)
300 g spínat
500 g saltað hrossakjöt
250 g ricotta ostur
140 g parmesan rifinn niður
500 g tómatsósa (Passata)
1/2 laukur, skorinn í tvennt
5 hvítlauksrif, söxuð niður
3 msk ólífuolía
2 lárviðarlauf
2 negulnaglar
2 einiber
Aðferð
1. Snyrtið kjötið og sjóðið það í nægu vatni með lauknum, lárviðarlaufum, negulnöglum og einiberjum í 2 klst. Gott er að hafa pottinn lokaðan alla suðuna, en snúa kjötinu nokkrum sinnum.
2. Eftir að um 1 og 1/2 klst. er liðin af suðunni er hægt að byrja að útbúa hin hráefnin og hita ofn í 180°C.
3. Léttsteikið hvítlauk með 1 msk af ólífuolíu á pönnu.
4. Hellið tómatsósunni í pönnuna með hvítlauknum og skolið flöskuna með 20 ml vatni yfir í pönnuna til að ná restinni af sósunni úr flöskunni.
5. Leyfið sósunni að malla við létta suðu í 10 mínútur.
6. Sjóðið pastaskeljar í saltvatni og sjóðið 5 mínútum skemur en til er ætlast á pastapakkanum.
7. Blandið ca. 100 ml af pastavatni út í tómatsósuna og látið malla í 5 mínútur.
8. Hellið pastavatninu og hristið varlega saman pastaskeljarnar og 1 msk ólífuolíu svo að þær festist ekki saman.
9. Hellið hvítlaukstómatsósunni í eldfast mót.
10. Skolið og hreinsið spínatið og skerið gróft niður.
11. Hitið 1 msk af ólífuolíu á pönnu, setjið spínatið í pönnuna og snúið reglulega. Gott er að hafa pönnuna með loki til að flýta fyrir.
12. Takið spínatið af hitanum og veltið Ricotta-ostinum og um 120 g af parmesan saman við spínatið, þar til að það er vel blandað.
13. Að 2 klst. liðnum má taka kjötið úr suðunni, taka fitu af kjötinu og skera það í litla teninga.
14. Blandið kjötinu varlega við spínat-osta blönduna.
15. Setjið blönduna með skeið í hverja pastaskel og raðið skeljunum ofan á tómatsósuna í eldfasta mótinu.
16. Dreifið restinni af parmesan-ostinum yfir og bakið í 10 mínútur við 180°C, grillið svo í örstutta stund til að brúna parmesan-ostinn.
Braðgott rauðvín frá Bordeaux eða Valpolicella héraði hentar vel með réttinum.
/Uppskriftin hér að ofan er lauslega þýdd og staðfærð. Hér er frumútgáfan. Uppskriftarhöfundur er Leila Martins.
-
Saltað hrossakjöt frá Hellu2.315 kr. – 2.881 kr.
-
Hrossabjúgu frá Hellu – 2 stk.4.210 kr.
-
Grænmeti í áskrift –Frá: 4.995 kr. / á mánuði