Deila þessari síðu
Það sem ég lærði bæði í skóla og praktík hér í Kaupmannahöfn var að velta rauðsprettuflakinu fyrst í hveiti, svo eggjablöndu og raspi, þá djúpsteikt í olíu við 165-175 gráður þar til gullinbrúnt. Leggja upp á pappír, salta vel og bera fram með réttu meðlæti – en þá má einmitt alls ekki vanta hið elskaða og klassíska remúlaði Dana.
Í seinni tíð hef ég vanist á að pönnusteikja þar sem ég velti rauðsprettunni eingöngu í smá hveiti með salt og pipar og leyfi þá fiskinum að njóta sín betur.
Klassískt Smörrebrauð – með mæjónesi og rækjum eða remúlaði
Hráefni fyrir 1 stk. smörrebrauð:
- Ein skífa danskt rúgbrauð
- Smjör
- Salat
- Einn þunnt sneiddur sítrónubátur
- Tvær þunnt skornar tómatsneiðar „án involsins“
- Eitt rauðsprettufillet 70-100 g, velt í hveiti með salti & pipar
- Sólselja (dill)
- Ein matskeið remúlaði eða mæjónes og fáeinar rækjur
Aðferð
Gott er að byrja á að hafa allt við hendina sem á að nota við smörrebrauðsgerðina.
Rauðsprettunni velti ég upp úr hveitiblöndunni með salti og nýmuldum pipar. Set fiskinn á heita pönnuna með smá rapsolíu, þar sem roðið snýr upp. Þegar ég sé að kanturinn á fiskinum er að brúnast, legg ég klípu af smjöri með og hristi aðeins pönnuna. Hinkra í 1-2 mínútur og lyfti aðeins rauðsprettunni til að sjá hvort hún sé ekki tilbúin. Sný flakinu við og slekk á hitanum og leyfi fiskinum aðeins að steikjast áður en ég legg upp á fat.
Þá get ég byrjað að undirbúa smörrebrauðið því það er gott að leyfa fiskinum aðeins að kólna.
Rúgbrauðið er vel smurt með smjöri, það má velja það salat sem að manni finnst best eða hefur við hendina. Í gamla daga var alls ekki lagt mikið við en það hefur breyst í seinni tíð. Ég tek salatblaðið og brýt upp á það og legg á efri kant rúgbrauðsins.
Rauðsprettuna legg ég svo að hún dekki rúgbrauðsneiðina.
Matskeið af mæjónesi/remúlaði er lögð ofarlega á rauðsprettuna salatblaðsmegin.
Tvær þunnar skífur af tómat og einn sítrónubátur er raðað fallega saman og skreytt með sólseljunni. Á smörrerbrauðið með mæjónesinu eru lagðar nokkur stykki af rækjum.
Njótið!
Sólskinskveðjur frá Kaupmannahöfn.
-
Flögusalt frá Saltverki1.295 kr.
-
Léttsaltaðar gellur2.860 kr.