Deila þessari síðu
Íslendingar hafa aldrei borðað síld í sama mæli og flestar nágrannaþjóðirnar, heldur ekki á þeim tímum þegar síldveiðar voru ein mikilvægasta atvinnugrein okkar.
Eina útgáfu síldar má þó segja að við höfum tekið í fulla sátt og það er maríneraða síldin – krydduð eða ókrydduð – sem er ómissandi á jólaborðinu hjá mörgum en aðrir borða hana allan ársins hring.
Maríneruð síld getur auðvitað verið afbragðskvöldverður ein og sér, til dæmis með soðnum kartöflum, harðsoðnum eggjum, rúgbrauði og ýmiss konar meðlæti, svo sem hrásalati, rauðrófum, sýrðum eða ferskum gúrkum, tómötum og mörgu öðru. Líklega eru þó flestir sem borða síld ofan á brauð, annaðhvort sem álegg á heilum brauðsneiðum eða á litlum snittum sem fingrafæði. Það er hægt að gera svo ótalmargt við síld og hér koma nokkrar einfaldar hugmyndir:
Rauðkálssíld
Rúgbrauð og smjör, salatblað, snöggsýrt rauðkál (smátt skorið rauðkál, er sett í skál með epla- eða hvítvínsediki, sjóðandi vatni, örlitlum sykri og salti hellt yfir og látið standa í a.m.k. 1 klst.), síldarsneiðar og e.t.v. kryddjurtir til skreytingar.
-
Hornfirskar kartöflur – Helga – 5 kg2.540 kr.
-
Kofareyktur lax – heilt eða hálft flak4.080 kr. – 7.580 kr.
Dillsíld
Rúgbrauð og smjör, salatblað, sýrður rjómi (18 eða 36%) eða majónes (eða blanda af einhverju af þessu), hrært saman við síldarbita, smátt saxað harðsoðið egg, saxaðan lauk úr síldarfötunni og saxað dill. Skreytt með dilli og e.t.v. piparkornum eða allrahandaberjum úr síldarfötunni.
Karrísíld
Rúgbrauð og smjör, salatblað/blöð, sýrður rjómi (18 eða 36%) eða majónes (eða blanda af einhverju af þessu) sett í skál, kryddað með karrídufti á hnífsoddi (eða eftir smekk), pipar og e.t.v. nokkrum dropum af hunangi. Síldarbitum hrært saman við. Skreytt með harðsoðnum eggjabátum eða -sneiðum, gúrku og dilli.
Kartöflusíld
Rúgbrauð og smjör, soðin kartafla skorin í þunnar sneiðar, harðsoðið egg í sneiðum, síldarbitar, dill.
Gúrku- og radísusíld
Gúrku- og radísusíld: rúgbrauð og smjör, rauðlaukshringir, síldarsneiðar, þunnar sneiðar af smágúrku og radísu, dill.
Púrtvínssíld
Rúgbrauð og smjör, salatblað, litlir púrtvínsmaríneraðir síldarbitar (nokkrir bitar settir í skál, 1-2 tsk af púrtvíni hellt yfir, pipar hrært saman við og látið standa í 1 klst.) rauðlaukshringir.
Sinnepssíld
Rúgbrauð og smjör, salatblað, majónes og sýrður rjómi (36 eða 18%) til helminga (eða bara annað hvort) sett í skál og saxaður vorlaukur eða graslaukur, svolítið dijonsinnep, örlítið karríduft og hvítur pipar hrært saman, síldarbitum blandað saman við og sett á brauðið, 2-3 harðsoðnar eggjasneiðar settar ofan á, skreytt með vorlauk eða graslauk.
Rauðrófusíld
Rúgbrauð og smjör, salatblað, majónes og sýrður rjómi (36 eða 18%) til helminga (eða bara annað hvort) sett í skál, 2-3 rauðrófusneiðar (soðnar og e.t.v. sýrðar) settar út í ásamt síldarbitum og hrært saman (svolitlum legi af rauðrófunum hrært saman við ef maður vill bleikari lit) og látið standa um stund. Skreytt með sneið af harðsoðnu eggi og rauðrófuræmum.
-
Reykt ýsa – roðlaus í bitum – 1 kg4.170 kr.
-
Grænmeti í áskrift –Frá: 4.995 kr. / á mánuði