Deila þessari síðu
Hugleiðingar um kaffi; hráefnið, ferskleika þess og virðingu
Þegar við heyrum orðið „KAFFI“ erum við öll með okkar eigin skilgreiningar á því. Kaffi er eitt af þessum umræðuefnum sem við seint þreytumst á, svona svipað og veðrið. Margir hugsa um kaffi sem hráefni sem hægt er að breyta í fljótandi hressingardrykk. Aðrir hugsa um kaffi sem ástæðu til að setjast niður og að ræða málin. Og enn aðrir hugsa um kaffi sem hluta af lífsstíl og hafa byggt kaffimenningu inn í sína daglegu rútínu.
Og svo er það stóri hópurinn af mismunandi starfstéttum sem ræktar og vinnur, ferjar, ristar, pakkar og selur kaffi til kaffiunnenda. Þessi keðja er oft kölluð frá „baun í bolla“.
Hver ber ábyrgð á kaffinu mínu?
Kaffi er fersk vara og það eru uppskerutímabil í kaffiræktunarlöndunum að meðaltali einu sinni á ári. Til að tryggja ferskleika kaffis eru allir í keðjunni frá „baun í bolla“ ábyrgir. Kaffibóndinn passar upp á ræktunina og vinnsluna og flutningsaðilar passa upp á að koma kaffinu áfallalaust í kaffibrennsluna. Þar fara fram prófanir til að finna prófíl sem hentar kaffinu og draga fram bragðeiginleika þess.
Hvernig næ ég því besta út úr kaffinu?
Þegar kaffiunnendur fá kaffið í hendurnar er það þeirra verkefni að hugsa um kaffið sem ferska vöru frá ristun og hvernig hægt er að ná fram bestu eiginleikum kaffisins. Þeir vilja geta fylgst með hvernig kaffið breytist á fyrstu dögum frá ristun og finna muninn. Oft eru kaffibrennslur búnar að hugsa fyrir „breytingaskeiðinu“ á kaffinu og selja það með að lágmarki tveggja vikna dagsetningu frá ristun. Það er frábært þegar við erum í tímaþröng og ætlum að hella upp á strax. Hinn möguleikinn er að hugsa fram í tímann, kaupa nýristað kaffi og smakka það til heima í eldhúsi.
Kaffikvörn er nauðsynlegt heimilistæki þegar kemur að því að halda ferskleika kaffisins. Nýmalað kaffi er aðeins nýmalað fyrstu mínúturnar eftir mölun. Þegar kaffiunnendur hella upp á er mikilvægt að mala það magn af kaffibaunum sem þarf fyrir hverja uppáhellingu og í þeim grófleika sem hentar uppáhellingaraðferðinni.
Kaffi er ferskt hráefni sem er oft flókið og með ævintýralegum bragðheimi. Sagt er að til séu um 1500 bragðeiginleikar í kaffi.
Það er fjölbreytt bragðið í bollanum þínum
Þegar greina á kaffið er gott að styðjast við bragðhjólið á myndinni hér að ofan. Setjum kaffibollann í miðjuna á hjólinu, tökum sopa og spyrjum spurninga. „Hvert er fyrsta bragðið sem kemur upp í hugann?” Ef svarið er t.d. ávöxtur þá getum við fikrað okkur áfram í nákvæmari lýsingu um hvers konar ávöxt við finnum í bragðinu. Sæta, sýrni og biturleiki er í öllu kaffi og svo bætast við bragðeiginleikar sem geta þróast út frá yrkjum af kaffitrám, jarðvegi, rigningu o.s.frv.
Stundum er kaffið ekki gott
Því miður kemur það fyrir að kaffið er ekki fullkomið og jafnvel skemmt. Annað dæmi um bragðhjól hjálpar okkur að finna hvað er að kaffinu ef það bragðast ekki eins og það á að gera. Til dæmis ef koma fram skemmdir í ræktun, vinnslu, flutningi og ristun á kaffinu. Oft kemur fram sveppur, sýking eða skordýr sem leggst á kaffitréð og það hefur áhrif á bragðið.
Um tíu íslenskar kaffibrennslur
Það eru að jafnaði í kringum 10 kaffibrennslur starfandi á Íslandi og því er auðvelt að nálgast nýristað kaffi allt árið um kring. Íslenskar kaffibrennslur standa sig vel í að flytja inn flott hráefni til að bjóða landsmönnum. Hráefnið er í mismunandi gæðaflokkum. Oft er kaffið rekjanlegt frá „baun í bolla“ og margar þeirra selja alfarið hráefni í gæðaflokknum „Sérvalið kaffi“ (e. specialty coffee). Íslenskar kaffibrennslur selja framleiðsluna sína í kjörbúðum, sérverslunum, á þeirra eigin kaffihúsunum eða á auglýstum opnunardögum í kaffibrennslunum.