Deila þessari síðu
Hvernig finnst þér best að borða hangikjöt?
Það er smekksatriði hvort hangikjötið er borðað hrátt eða soðið, en ef það er soðið er best að sjóða það í um 40 mínútur fyrir hvert kíló. Hafa stóran pott, eða skipta um vatn einu sinni því það dregur úr saltmagninu. Soðið hangikjöt er ýmist borðað heitt eða kalt, hvorttveggja gott. Ef sjóða á kjötið seinna er best að setja það í frysti þangað til daginn áður en það er soðið. Ef borða á kjötið hrátt, er best að hengja það upp á þurrum köldum stað, þar sem loftar um það. Þá heldur þá áfram að þorna sem er gott.
Hrátt hangikjöt hentar ekki sem aðalréttur, frekar sem forréttur eða snakk. Það er þá skorinn af lærinu hæfilegur biti, þunnar sneiðar eða litlir teningar. Piparrótarsósa eða balsamedik er prýðisgott með hráu hangikjöti.
Taðreyking á hangikjöti er vinsæl
Hangikjötið er arfleifð af gamalli verkunaraðferð. Reykurinn og saltið eykur geymsluþolið, og því meir eftir því sem meira er reykt og/eða saltað. Þurrkunin er líka mikilvæg og hér áður var salt af skornum skammti eða mjög dýrt og þá var frekar þurrkað eða reykt. Á Íslandi er taðreyking vinsæl, en einnig má nota sumar trjátegundir, t.d. birki, elri o.fl, en líka moð eða úthey. Í Noregi má greina breytileika í samspili þurrkunar, söltunar og reyks eftir veðurfari sveitanna. Þá er meira reykt í votari sveitum, rakara loftslagi, enda meiri þörf á því þar. Um hangikjöt og ýmsa aðra gamla matarsiði má t.d. lesa um í bókinni Íslenskir þjóðhættir eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili.
Íslenska hangikjötið er stöðluð vara, eins og maturinn okkar almennt. Það þykir þjóðlegt að hafa hangikjöt á beini, gjarnan af fullorðnu, það er bragðmeira og oft feitara.
Ljúkum þessu með þjóðvísu (úr bók Jónasar) sem gott er að hugleiða um hátíðarnar og er hugsanlega lausnin á gátunni af hverju hangikjötslyktin er svona seiðandi.
Hjónin borða hangiket,
hjúin svöng það vita
Smalinn sárt af sulti grét,
samt fékk engan bita.
(Hjónin = húsráðendur, hjúin = vinnufólkið, smalinn er fjárhirðirinn, sá er vann vinnuna)
-
Grænmetisgjafabréf5.940 kr. – 6.900 kr.