Deila þessari síðu
Mér þykir nokkuð gaman að velta fyrir mér stóru myndinni varðandi verðmætasköpun á Íslandi. Við Íslendingar búum svo vel að njóta ríkra náttúrugæða og hefur með þeim auðnast að skapa sterkan efnahagsgrundvöll. Fiskur, ferðamenn og stóriðja hafa verið hryggjarstykki í auðlindadrifnu hagkerfi, sem góðu heilli hefur orðið margbrotnara og þar með seigara (e. resilient) upp á síðkastið.
Bætt stjórnun, aukin áhersla á verðmæti í stað magns og áhersla á nýsköpun var grundvöllur þess að tvöfalda verðmætasköpun sjávarútvegs á veitt tonn frá 2003 til 2011 og draga úr koldíoxíðlosun um helming. Í stað sóknar á ný mið, líkt og Smuguna um 1990, hefur áherslan verið á lágmörkun brottkasts og nýtingu afla sem dreginn er úr sjó. Það er nefnilega jafndýrt að veiða fisk sem er kastað og fisk sem nýttur er. Niðurstaðan: Sjávarútvegurinn þarf ekki gengisfellingar níunda og tíunda áratugarins og umræðan snýr meira að því hvernig deila skuli arðinum af auðlindinni en hvaða fyrirtækjum þurfi að bjarga.
Getum nýtt varmaorkuna miklu betur
Síðustu misserin hef ég verið sveitarstjóri í sveitarfélagi sem er ríkt af orku, Skútustaðahreppi. Virkjun í Bjarnarflagi var fyrsta jarðvarmavirkjun landsins, Krafla fylgdi í kjölfarið og Þeistareykir síðan nýlega (2018) í nágrannasveitarfélaginu Þingeyjarsveit. Sameinuð mynda Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur stærsta skipulagssvæði landsins, um 12 þúsund km2 og eru allar jarðvarmavirkjanir Landsvirkjunar innan þess skipulagssvæðis. Innan svæðisins eru framleidd 156 MW af raforku í þremur jarðvarmavirkjunum. Þessi orka er meira og minna öll flutt út fyrir sameinað sveitarfélag og er lítil áhersla á fullnýtingu varmaorku sem fellur til. Þó er gott dæmi um nýtingu „afgangsorku“ að finna í Jarðböðunum, sem er stærsti vinnustaður Mývatnssveitar.
Það eru a.m.k. 1200 MW sem eru virkjuð til að framleiða þessi 156 MW í Kröflu, Bjarnaflagi og Þeistareykjum. „Brottkastið“ í fyrsta hlekk framleiðslunnar er að lágmarki um 85% og felst í gufu og mjög heitu vatni sem er dælt ofan í hraun. Ofan á þetta brottkast bætist svo flutningstap (um 2%). Ef samlíkingin við sjávarútveg er tekin: Kaupum skip, siglum á miðin, tökum inn trollið (fjárfestingin), hendum strax 85% af aflanum og síðan úldna um 2% af afurðunum á leið á hrávörumarkað. Myndu hluthafar í sjávarútvegsfyrirtækjum sætta sig við slíkt?
Við sköpum ekki næg verðmæti úr orkunni
Verðmætasköpun per framleidda orkueiningu er afar lág á Íslandi og hefur farið lækkandi upp á síðkastið. Við sköpum um 75% minni verðmæti per orkueiningu en Norðurlöndin, sem hafa aukið verðmætasköpun per framleidda orkueiningu síðustu áratugi. Við þurfum að snúa þessari þróun við, leggja mun meiri áherslu á fullnýtingu orkunnar og þannig skapa verðmæti í nærsamfélagi orkuvinnslunnar.
Matvælavinnsla, fiskeldi og gróðurhús eru meðal lausnarorðanna
Þörungarækt, nýting lífrænna auðlinda (matarafgangar, svartvatn o.fl.) til áburðarframleiðslu, fóðurframleiðsla, matvælavinnsla, þurrkun, eimun, fiskeldi og gróðurhús eru meðal lausnarorðanna, en fyrst og fremst þarf að skipuleggja landnotkun með fullnýtingu í huga, fjárfesta í innviðum og gefa frumkvöðlum tækifæri á að skapa verðmæti.
Þannig munum við skapa aukin verðmæti og ná jafnvægi milli náttúruverndar og nýtingarstefnu sem er nauðsynlegt fyrir ferðaþjónustu framtíðarinnar og verðmætasköpun innan þeirrar greinar.
Samhliða sköpum við tækifæri til að sækja fram af krafti í byggðamálum, auka fæðuöryggi og þar með viðnámsþrótt íslensks samfélags. Hugsum þetta heildstætt!
Nokkrar heimildir:
Verðmætasköpun i sjávarútvegi
Losun CO2 í sjávarútvegi
Flutningstöp o.fl – Staða og áskoranir í orkumálum
Raforkuhlutfall jarðvarmavirkjana
Orkunotkun á þjóðarframleiðslu/verðmætasköpun
Umfjöllun um orkunýtingu og sóun í virðiskeðju orkuframleiðslu og orkudreifingar