Deila þessari síðu
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að efla starfsemi Loftslagráðs með því að leggja til aukið fjármagn í fjárlagafrumvarpi 2023 til ráðsins. Jafnframt verður stofnað sérstakt opinbert félag um starfsemi þess. Nýráðinn framkvæmdasjtóri Loftslagsráðs er Þórunn Wolfram Pétursdóttir en hún mun hefja störf 1. janúar á nýju ári. Þórunn er með doktorsgráðu í umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands og er starfandi sviðsstjóri hjá Landgræðslunni og staðgengill Landgræðslustjóra. Hún gegndi starfi aðstoðarmanns þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra árið 2017.
Loftslagsráð starfar á grundvelli laga um loftslagsmál og er skipað fulltrúum sveitarfélaga, launþega, neytenda, viðskipta- og atvinnulífs, bænda, háskólasamfélagsins, umhverfisverndarsamtaka og ungs fólks. Ráðið skal samkvæmt lögum vera sjálfstætt í störfum sínum og veita stjórnvöldum aðhald og faglega ráðgjöf.
Skipað var í Loftslagsráð í ágúst 2019 og er skipunartíminn fjögur ár. Eftirtaldir aðilar tilnefndu fulltrúa og varafulltrúa í ráðið:
- Alþýðusamband Íslands
- Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð
- Háskólasamfélagið (2 fulltrúar)
- Bændasamtök Íslands
- Viðskiptaráð Íslands
- Neytendasamtökin
- Samband íslenskra sveitafélaga (2 fulltrúar)
- Samtök atvinnulífsins
- Umhverfissamtök (2 fulltrúar)
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipar þrjá aðila án tilnefningar, formann og varaformann, auk fulltrúa ungs fólks.
Nánar er hægt að lesa um Loftslagsráð hér.