Deila þessari síðu
Skonsur eru svolítið gamaldags og hafa fallið í skuggann í kaffibrauðsmenningunni okkar. Mér finnst það hálfgerð synd þar sem nýbakaðar skonsur með fjölbreyttu áleggi eru algjört sælgæti. Ég tala nú ekki um þegar þær eru notaðar í gamaldags skonsubrauðtertu sem var oft gerð á mínu heimili þegar eitthvað stóð til. Hún vakti alltaf lukku.
Best er að steikja skonsur og njóta samdægurs því þá eru þær bestar. En það er líka gott að eiga nokkrar í frysti til að grípa í og þær eru tilvaldar í nesti. Æðislegt að njóta um jólin, smurðar með hangikjöti eða laxi.
Þó skonsur og pönnukökur þekkist víða hjá nágrannalöndum okkar, s.s. á Norðurlöndunum og Bretlandseyjum, þá eigum við þessa uppskrift fyrir okkur finnst mér.
Svíar búa til frábærar pönnukökur sem eru örlítið þynnri en skonsur. Samkvæmt hefðinni voru þær borðaðar sem eftirréttur á fimmtudögum áður fyrr, þegar söltuð svínasíða og baunasúpa var í matinn. Algjört sælgæti með rjóma og sultu.
-
Hrossabjúgu frá Hellu – 2 stk.4.210 kr.
-
Grænmeti í áskrift –Frá: 4.995 kr. / á mánuði
Norðmenn eiga einnig sínar skonsur og pönnukökur sem og Finnar og Danir. Síðan er einhverjar útfærslur hingað og þangað um Skandinavíu, Álandseyjar eru þar á meðal með sérstaka útgáfu sem er bökuð í ofni og mun vera ágætis eftirréttur.
Breskar skonsur eru nokkuð frábrugðnar þeim sem við þekkjum. Þar eru til nokkrar tegundir af bæði blautdeigsskonsum sem og gerbaksturs-skonsum. Skotar eiga sér einnig ágætis skonsur sem kallast „Griddle scones“ og síðan eru það „scones“ sem er eru hnoðaðar og bakaðar í ofni.
Það er auðvitað hægt að kaupa skonsur í pakka út í búð, en þær heimagerðu finnast mér alltaf bestar!
Þessa uppskrift gerði hún amma mjög oft. Það lifir í minningunni að sitja spennt við borðið eftir glænýrri sjóðandi heitri skonsu á diskinn.
Hráefni
- 250 g hveiti
- 3-4 dl mjólk
- 2 egg
- 4 tsk. lyftiduft
- 50 g smjörlíki, brætt
- 1-2 msk. sykur
- Smá salt
Aðferð
Hrært saman þar til kekklaust og steikt upp úr smjörlíki við nokkuð lágan hita á pönnukökupönnu.
Borið fram með góðu áleggi eða lagt saman sem brauðterta með góðu salati á milli og skreytt eins og hugurinn girnist.
-
Grænmeti í áskriftFrá: 4.995 kr. / á mánuði
-
Hrossabjúgu frá Hellu – 2 stk.4.210 kr.