Deila þessari síðu
Brauðbúðingur er þekktur eftirréttur á mörgum stöðum í heiminum. Hann er til í ótal mismunandi útfærslum og sósur eða ís hafður með. Vanillu- eða viskísósur eru mjög vinsælar en mér finnst best að flækja ekkert hlutina og nota heita íssósu og smá vanilluís eða rjóma með.
Nýtum brauðafgangana
Brauðbúðingur er yfirleitt gerður úr brauði sem er við það að syngja sitt síðasta og það eru varla takmörk fyrir því hvaða brauð má nota. Allt frá fransbrauði, pylsubrauði, hamborgarabrauði, jólaköku eða croissant svo eitthvað sé nefnt. Ég safna yfirleitt brauðafgöngum í poka sem ég geymi í frysti, bæði heima og í vinnunni. Búðinginn geri ég reglulega og hann vekur iðulega lukku, sérstaklega í vinnunni. Svo er eitthvað svo huggandi og kósý við það þegar það er dumbungur og kalt úti að gæða sér á sætum heitum búðingi. Ekki verra að hafa gott kaffi eða kakó með.
-
Grænmeti í áskrift –Frá: 4.995 kr. / á mánuði
Brauðbúðingur – uppskrift
- Um það bil 400-500 g brauð, helst ljóst.
- 4 dl rjómi
- 4 dl mjólk
- 170 g sykur
- 3 tsk vanilludropar
- ½ -1 dl rúsínur (má sleppa)
- 150 gr brytjað suðusúkkulaði
- 1/3 tsk múskat
- 1 tsk salt
- 100 g brætt smjör
- Kanilsykur til að strá yfir.
Aðferð
Blandið öllu saman í skál nema brauði, súkkulaði og rúsínum. Hrærið vel saman.
Rífið brauðið niður og blandið saman við vökvann.
Setjið þar næst rúsínur og súkkulaði út í.
Bræðið smjör og smyrjið eldfast mót með hluta af því og hellið blöndunni í formið.
Stráið nokkuð rausnarlega af kanilsykri yfir (má líka nota hrásykur) og hellið restinni af smjörinu nokkuð jafnt yfir.
Bakið í ofni við 180°C í um 30-40 mín eða þar til búðingur byrjar að stífna og kominn er fallegur litur á toppinn.
Berið fram með góðri desertsósu, ís eða rjóma.
Ef þið viljið prófa aðeins meira fullorðins útgáfu, þá mæli ég með að prófa smá viskíslettu í blönduna eða jafnvel „Tia María“ líkjör. Byrja á eins og hálfum desilítra í vökvann og smakka til. Bæta svo við eftir hversu afgerandi bragð þið viljið.
-
Bio hakkbollur – 3 pk x 500 g6.795 kr.
-
Grænmeti í áskrift –Frá: 4.995 kr. / á mánuði