Deila þessari síðu
Nanna Rögnvaldardóttir deilir hér uppskrift að hreindýrabollum með sveppa- og bláberjasósu með lesendum Matlands. Þetta er sannkallaður sparimatur en það er líka hægt að búa til klassískar bollur (sjá uppskrift hér). Nanna mælir með að krydda hreindýrahakkið hóflega til þess að kæfa ekki hreindýrabragðið.
Magurt hreindýrahakk getur orðið býsna þurrt þegar það er matreitt og því inniheldur besta hakkið töluvert af fitu – þegar allt kemur til alls er bragðið ekki síst í fitunni – en jafnvel þótt það sé ágætlega feitt er oft til bóta að bæta t.d. smjöri eða rjóma í farsið. Stundum er notað feitt beikon en þá getur eitthvað af hreindýrabragðinu horfið.
Hráefni
- 500 g hreindýrahakk
- 3-4 brauðsneiðar, skorpulausar
- 250 ml rjómi
- 1 vorlaukur (bara grænu blöðin)
- 1 tsk þurrkað timjan
- 1 tsk salt
- 1/3 tsk pipar
- 6-8 valhnetukjarnar
- 1-2 msk þurrkuð trönuber
- 1 msk olía
- 1 msk smjör
- 250 g sveppir
- lófafylli af bláberjum, gjarna íslenskum (mega vera frosin)
- 1 msk bláberjasulta eða önnur sulta
Aðferð
Rífðu brauðið niður og settu í matvinnsluvél eða blandara, helltu 100 ml af rjóma yfir og láttu standa þar til brauðið er vel blautt. Saxaðu vorlaukinn og settu í vélina ásamt timjani, pipar og salti og láttu hana ganga þar til allt er vel blandað saman. Bættu þá hnetum og trönuberjum út í og láttu ganga smástund, þar til hneturnar eru grófmalaðar en þó vel sýnilegar í blöndunni.
Settu allt saman í skál og blandaðu vel saman, helst með höndunum (það er best að hræra sem minnst því að það getur gert bollurnar þurrar). Farsið á að vera fremur lint, þó þannig að bollurnar haldist saman á pönnunni. Bættu við meiri brauðmylsnu ef það er of lint, aðeins meiri rjóma ef það er fremur þurrt. Gott er að steikja eina bollu úr farsinu til að athuga hvort þarf að krydda hana meira.
Mótaðu litlar bollur, hnöttóttar eða aflangar eins og smápylsur eins og sjá má á myndinni. Hitaðu smjör og olíu á pönnu, settu bollurnar á hana og steiktu þær við meðalhita á þremur hliðum í 2-3 mínútur á hverri. Snúðu þeim gætilega svo að þær losni sem minnst í sundur. Skerðu á meðan sveppina í sneiðar.
Taktu bollurnar af pönnunni og haltu þeim heitum. Bættu sveppunum á pönnuna, kryddaðu með pipar og salti og láttu krauma þar til þeir hafa tekið góðan lit. Settu þá berin á pönnuna, helltu 100 ml af vatni yfir og síðan afganginum af rjómanum (150 ml) og hrærðu sultunni saman við. Láttu malla í nokkrar mínútur, þar til sósan er hæfilega þykk. Settu þá bollurnar aftur á pönnuna ef þarf að hita þær.
Berið fram t.d. með góðu salati og soðnum eða steiktum kartöflum.