Deila þessari síðu
Á árunum 1958-1986 kom út Eldhúsbókin, sem Heimilisbókaútgáfan gaf út. Laufey Kristjónsdóttir hafði samband og vildi gauka að mér nokkrum árgöngum af þessu veglega tímariti. Blaðið er hið veglegasta, uppskriftir, fróðleikur, handavinna og blómaþáttur svo eitthvað sé nefnt. Þegar ég sótti Eldhúsbókina bauð Laufey upp á ljúffengar ítalskar kjötbollur með meiriháttar mintusósu.
Ítalskar kjötbollur
1 kg nauta- eða kálfahakk
3 heilhveitibrauðsneiðar
handfylli af söxuðum rúsínum
1 bolli smátt rifinn Pecorino sauðaostur
1 knippi steinselja, smátt söxuð
2-3 litlir hvítlaukar, pressaðir
4 egg
heimatilbúið rasp eftir þörfum
2 ½ tsk sjávarsalt
1 ½ tsk hvítur pipar
Brauðsneiðarnar lagðar í bleyti í vatn í smástund sem síðan er kreist úr þeim. Sett í stóra skál ásamt öllu öðru nema raspinu. Blandað vel saman með höndunum áður en raspinu er bætt smám saman út í 1-2 msk í einu þar til auðvelt er að móta bollur úr deiginu sem eiga að vera frekar stórar. Um 20 stk.
Raðið á smörpappírsklædda bökunarplötu og eldið við 180° í hálftíma.
Pastasósa
2 laukar
2 hvítlaukar litlir
3 dósir niðursoðnir tómatar
1 dós tómatpurré
1 fræhreinsað chili
1 stórt knippi basilika, söxuð
½ -1 bolli vatn
salt og pipar
Smátt sneiddur laukurinn glæraður í olíu í potti.
Restinni bætt út í ásamt vatni eftir þörfum.
Látið malla við mjög vægan hita í 1-2 klst. Hrært í af og til.
Mintusósa
5 dl grísk jógúrt
½ knippi fersk minta, söxuð
hnefafylli steinselja, söxuð
3-4 msk sítrónusafi
2-3 tsk hunang
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
Öllu blandað saman og smakkað til með salti, pipar, hunangi/sítrónu.