Deila þessari síðu
María og prinsessan
„Hej prinsessa!“ Sagði hún við þriggja ára dóttur mína sem skaust bak við kápuna mína. Konan sat umvafin teppum fyrir utan hverfisbúðina okkar í Stokkhólmi með skilti sem á stóð „Ég á 5 börn, hjálpið mér.“ Konan heitir María og er ein þeirra sem í pólitískri umræðu í Svíþjóð eru kölluð ESB-ferðalangar (s. EU-migranter) – fólkið sem situr fyrir utan búðirnar með pappamál og skilti. Þau koma frá fátækustu svæðum í Evrópu og sum þeirra komu í þeirri trú að hér væri vinnu að fá en endað betlandi fyrir utan búðirnar. Önnur eru þaulþjálfuð í þessari atvinnugrein. Þau eru jafn ólík og þau eru mörg en eiga það sameiginlegt að hafa lagt á flótta frá fátækt og örbirgð.
Misskipting heims á heimleiðinni
Það var ekki annað hægt en að kynnast Maríu. Í hvert sinn sem við dóttir mín nálguðumst búðina birti yfir andlitinu: “Hej prinsessa!”og feimni vék fyrir brosi. Það er óhentugt og óþægilegt að þurfa að horfast í augu við misskiptingu heimsins á leiðinni heim eftir annasaman dag. Það er freistandi að forðast augnsamband og muldra ofan í hálsmálið að „ég er því miður bara með kort“ á meðan að seðillinn brennur í vasanum. Það getur hreint út sagt farið í taugarnar á manni og svo hellist yfir mann skömm. Hvað hef ég svo sem aflögu, fátækur námsmaðurinn?
Með fangið fullt af mat
Dagar og vikur liðu og við, prinsessan og mamma hennar, fórum að heilsa Maríu sem sat þarna án barnanna sinna fimm með pappamálið. Við fórum að gauka að henni klinki eða seðlum og svo stoppa og láta reyna á einhvers konar samræður með handapati og hrærigraut af evrópskum orðum, smá ítölsku, smá þýsku, sænsku og ensku. María er lifandi og sjarmerandi kona með glitrandi augu og kímnigáfu, jafnvel í 10 stiga frosti með pappamálið í fanginu brosir hún breitt og baðar út höndunum. Með tímanum kynnumst við Maríu betur og áður en við vissum af var hún farin að þvo þvott og fara í sturtu heima hjá okkur vikulega. Einn daginn birtist hún svo heima hjá okkur, í þetta sinn ekki með fangið fullt af þvotti heldur með mat og þannig æxlaðist að María eldaði fyrir okkur og deildi með okkur fyrstu máltíðinni af mörgum.
Sameiningarmáttur máltíðarinnar
Matur sameinar. Að deila máltíð með annarri manneskju er náin stund og að elda fyrir einhvern getur borið vott um djúpstæðan kærleik. Matur er þungamiðja mannlegra samskipta. Rannsóknir sýna að það að deila máltíð með öðrum eykur andlega vellíðan, styrkir tengsl og hefur jákvæð áhrif á sjálfsímynd fólks.
Að deila máltíð byggir traust manna á milli og það fyrsta sem við kynnumst á framandi slóðum er oftar en ekki matarmenning viðkomandi lands eða svæðis.
Margir þekkja söguna af því þegar þegar þúsundir breskra, belgískra, franskra og þýskra hermanna lögðu niður vopn á aðfangadag árið 1914 og deildu saman jólamáltíð, á jóladag skiptust þeir á gjöfum, sígarettum og mat og sungu saman jólasálma, spörkuðu milli sín bolta og fengu loksins tækifæri að jarða fallna félaga, máltíðin varð að friðarstund í miðju stríði. Það er ekki tilviljun að í öllum trúarritum leynast sögur af því hvernig ólíklegasta fólk hefur deilt máltíðum og þar með bundist eilífðarböndum.
Matvælaiðnaðurinn, markmiðin og máltíðin
Af hverju nefni ég þessar sögur í þessum fyrsta pistli mínum um matvælaiðnað og sjálfbærni?
Mátum orðið iðnaður við sögurnar og stöldrum aðeins við.
Matvælaiðnaðurinn er stórt og fjölbreytt batterí sem snýr hjólum atvinnulífsins og teygir anga sína inn í hvern krók og kima samfélagsins, hann er pólitík, hann er lifibrauð, hann er atvinnutækifæri en í senn er hann uppspretta misskiptingar, heilsufarsvanda, ósjálfbærrar auðlindanýtingar og kolefnislosunar.
Máltíð er margslungið fyrirbæri. Hún er samverustundin, nautnin, uppsprettan, vistsporið, samviskubitið, sáttargjörðin, fræið, fórnin og friðurinn, hún er einnota plastumbúðir, e-efni og dýraníðskandall. Alla þessa þætti þarf að hafa í huga á vegferðinni að sjálfbærum matvælaiðnaði.
Annað heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er að útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði. Matvælaiðnaðurinn tengist þó ekki einungis því markmiði heldur tengist öllum markmiðunum sautján, ekki síst heimsmarkmiði númer sextán um frið og réttlæti og númer sautján sem fjallar um samvinnu.
Svo lengi lærir sem lifir, í hinu stóra og hinu smáa
Að þiggja og deila máltíðum með Maríu kenndi mér margt, ég lærði að hún væri ári yngri en ég og að hún ætti tvær stelpur og þrjá stráka, sá elsti er jafn gamall mínum elsta, sá yngsti jafn gamall dóttur minni, prinsessunni. Ég lærði að María var ein fjögurra systkina og sú eina sem fékk ekki að fara í skóla því hún var með brún augu og dökkt hár og því ólík systkinum sínum sem voru ljósari yfirlitum. Útlitið olli því að það þótti ekki þess virði að splæsa á hana menntun, því var hún ekki læs. Ég lærði líka að hún vildi ekki fara í sturtu í aðstöðu Rauða Krossins því þar væru sumar konur dökkar á hörund. Ég lærði að lífið er enn flóknara en ég hélt og að það séu forréttindi að fá að lifa með fjölskyldunni sinni alla daga. María lærði að við maðurinn minn ættum börn og deildum lífinu án þess að við værum gift, að sumar minna vinkvenna væru dökkar á hörund og að hægt sé að þvo þvott á húsbáti. Og að fólk sem hafi tækifæri til að mennta sig í hverju sem er velji að fara í háskóla til að læra listir.
Sjálfbærni snýst um seiglu
Heimurinn eins og við þekktum hann verður aldrei samur. Í lok febrúar breyttist allt. Sjaldan hefur verið jafn aðkallandi að sýna samhygð og byggja brýr, brýrnar byrja innra með okkur, með náungakærleik og virðingu, því fleiri sem þær eru, þess þó sterkara er samfélagið sem við búum í.
Sjálfbærni snýst ekki síst um samfélagaseiglu, að snúa bökum saman og takast á við vandamál í sameiningu og deila máltíðum.