Deila þessari síðu
Í Hveragerði eru framleiddar hágæða heitar sósur undir vörumerkinu „Eldtungur“. Sósurnar eru afsprengi og hugarfóstur hjónanna Laufeyjar Sifjar Lárusdóttur og Elvars Þrastarsonar sem eiga og reka brugghúsið og pítsustaðinn Ölverk. Þau fengu nýlega 800 þúsund króna styrk frá Samtökum sveitarfélaga á Suðurlandi til þess að fara í markaðssókn með Eldtungurnar sem sverja sig í ætt við mexíkóskar og aðrar suðrænar sósur sem hafa gert gott mót á Íslandi í gegnum tíðina.
Innlendum viðskiptavinum fjölgaði í faraldrinum
Laufey Sif segir að heimsfaraldurinn hafi vissulega verið erfiður í veitingarekstrinum en samt sem áður hafi margt þróast með jákvæðum hætti á tímabilinu.
„Við tókum þá stefnu fyrir nokkru að styrkja reksturinn með því að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni. Við rekum veitingastaðinn Ölverk, erum í bjórframleiðslu og átöppun auk þess að framleiða sósurnar. Höfum verið í rekstri í fimm ár en við eigum afmæli 28. maí,“ segir Laufey Sif.
„Í kórónufaraldrinum gerðist það hjá okkur að innlendi viðskiptavinahópurinn stækkaði. Við erum í raun með fleiri íslenska fastakúnna núna en fyrir covid. Svo er allt komið á fullt að nýju og við vonum auðvitað að ferðamennirnir skili sér í sumar.“
Byrjuðu að rækta chilipipar heima í stofu
Laufey segir að hún og Elvar eiginmaður hennar hafi lengi haft áhuga á sósugerð.
„Við höfum fiktað við chiliræktun heima hjá okkur í yfir 15 ár. Það var í maí 2017 þegar við opnuðum Ölverk sem að við kynntum á markað og framleiddum fyrstu sósuna sem fékk nafnið Gillasósa. Hún var notuð á pítsur hjá okkur og naut mikilla vinsælda frá upphafi,“ segir Laufey sem í kjölfarið fór að gæla við þá hugmynd að framleiða og selja fleiri sósur til viðskiptavina veitingastaðarins.
Jarðhiti kemur við sögu
Núna framleiðir Ölverk fimm mismunandi Eldtungu sósutegundir sem allar hafa sína sérstöku eiginleika. Nýjasta sósan heitir „Sölvi“ og inniheldur m.a. jalapenó og íslensk söl. Sósurnar hafa allar sinn karakter og eru framleiddar með mismunandi aðferðum, þar á meðal þurrkun, reykingu og ákveðnar chilipipartegundir eru gerjaðar. Sérstaða sósanna felst ekki síst í því að við ræktunina og framleiðsluna er nýttur jarðhiti.
Chilibóndi í Reykholti
„Við notum fyrsta flokks hráefni í sósurnar en aðalatriðið og okkar sérstaða er að við notum íslenskan chilipipar sem er ræktaður af garðyrkjubónda í Reykholti. Á haustin og síðsumars uppskerum við chilipipartegundirnar en umfang ræktunarinnar hefur aukist hratt síðustu ár. Á hverju ári þurfum við meira af chili en árið áður til að geta annað allri eftirspurninni eftir sósunum,“ segir Laufey Sif.
Áhrifin koma víða að og allt kapp lagt á gæði
„Elvar er sósumeistarinn og hefur meðal annars sótt innblástur þegar við erum á ferðalögum um suðrænar slóðir, til dæmis í Asíu og í Mið-Ameríku. Fólk sem verslar við okkur og lifir í „sterka sósuheiminum“ veit að hverju það gengur þegar Eldtungurnar eru annars vegar. Sósurnar eru bragðgóðar þótt þær séu sterkar. Tilgangurinn með þeim er ekki að láta fólk þjást! Sömu lögmál gilda í sósuframleiðslunni eins og í bjórgerðinni og pítsabakstrinum. Við viljum gera góðar matvörur.“
Litlar flöskur í pökkum seldar sem matarminjagripir
Styrkurinn sem Eldtungurnar hlutu á dögunum mun sem áður segir fara í markaðssókn. Á markaðnum eru þegar 150 ml Eldtungu sósuflöskur en minni umbúðaeiningar eru í sjónmáli.
„Í covid notuðum við tímann og fórum í vöruþróun, umbúða- og auglýsingagerð. Cirkus auglýsingastofa var okkur innan handar og allt prentefni er framleitt hér á landi sem við leggjum mikla áherslu á. Við erum að kynna nýjar umbúðir fyrir Eldtungu sósurnar í 50 ml flöskum. Í einni pakkningu verða þá að finna fjórar sósutegundir sem við ætlum að selja þeim sem vilja eignast skemmtilega og bragðgóða matarminjagripi frá Íslandi,“ segir Laufey Sif.
Sósurnar seljast vel
Ölverk opnaði nýlega endurbættan vef á slóðinni olverk.is en þar er hægt að kaupa sósur, ýmsan varning og fræðast um framleiðsluvörur og þjónustu fyrirtækisins. Á vefsíðunni er blogghluti þar sem reglulega má finna eitthvað nýtt og spennandi lesefni. Aðspurð um það hvar sósurnar fáist í verslunum segir Laufey að það sé ekki alltaf auðvelt að verða sér úti um flöskur.
„Sósurnar seljast mjög vel en við höfum hingað til ekki viljað dreifa þeim í allar stóru matvörubúðirnar, frekar viljað einbeita okkur að því að koma vörunum í valdar sælkeraverslanir. Við finnum fyrir miklum meðbyr og erum afar bjartsýn á framtíðina,“ segir Laufey Sif Lárusdóttir sósuframleiðandi og frumkvöðull í Hveragerði.