Deila þessari síðu
„Það hefur alltaf verið hálfgert kvennaríki á Glitstöðum“ segir Guðrún Sigurjónsdóttir bóndi. Hún og Eiður Ólason maðurinn hennar reka myndarlegt kúabú sunnanmegin í Norðurárdal. Afi og amma Guðrúnar áttu fimm stelpur og þær máttu hjálpa til í búskapnum eins og þá tíðkaðist.
„Það er búin að vera samfelld búseta hjá sömu fjölskyldunni hér á Glitstöðum frá árinu 1927. Þá fluttu afi og amma hingað yfir úr Þverárhlíðinni og hófu búskap. Hér hafa alltaf verið kýr og kindur en þau voru líka með hesta. Nú er hérna mjólkurframleiðsla fyrst og fremst og svo höfum við verið að selja aðeins kjöt beint frá býli. Bæði af nautgripunum okkar og af kindum,“ segir Guðrún.
Endurnýjað fjós og mjaltaþjónn
Allar kynslóðir hafa byggt upp á Glitstöðum en nýlega hafa Guðrún og Eiður endurnýjað aðstöðuna í fjósinu.
„Við vorum að breyta fjósinu hjá okkur í lausagöngufjós með róbot. Allt okkar fóður sem við gefum gripunum er heimaræktað en svo höfum við líka keypt íslenskt bygg sem við teljum mjög gott. Þá verður kjötið meyrara og mýkra og við fáum efnameiri mjólk. Það skiptir miklu máli.“
Virðing fyrir skepnum er mikilvægur hluti þess að vera góður bóndi
Aðspurð um það hver lykillinn sé að því að ná góðum afurðum segir Guðrún margt koma til. „Við umgöngumst skepnurnar af virðingu og í rólegheitum. Pössum upp á að þær hafi alltaf nægt og gott fæði. Það er fyrst og fremst grundvöllurinn að þessu öllu; rólegheit og reglusemi.“
Færri kúabú í dalnum en Norðuráin sameinar sveitungana
Samfélagið í kringum landbúnaðinn í Norðurárdal hefur breyst mikið á síðustu áratugum. Þegar Guðrún var að alast upp þá voru 12 til 14 kúabú í dalnum en nú eru þau eingöngu tvö talsins, Dýrastaðir og Glitstaðir.
„Yfirleitt voru búin blönduð bæði með kýr og kindur. Það sem flestir eiga sameiginlegt hérna er Norðuráin og Veiðifélag hennar sem allir landeigendur eru aðilar að. Norðuráin, sem rennur hérna um, er gjöful, falleg og eftirsóknarverð. Það er mikill félagsskapur í kringum ána og sameiginlegt með öllum sveitungum.“
Kjöt frá Glitstöðum er fáanlegt hjá Matlandi. Hamborgarar, hakk, gúllas og ribeyesteikur. Samsettur pakki sem inniheldur 10 hamborgara, 1 kg af hakki (2 x 500 g) og 1 kg af gúllasi (2 x 500 g) er sérlega vinsæll.
Kjötið frá Glitstöðum er allt unnið í handverkssláturhúsinu í Brákarey. Þar fær kjötið að hanga lengur en gengur og gerist sem gerir það meyrt og mjúkt undir tönn.