Deila þessari síðu
Smáframleiðendur matvæla hafa verið duglegir síðustu misseri að koma vörum sínum á framfæri, m.a. í stórmörkuðum og við önnur tækifæri. Um þessar mundir er töluvert úrval af fjölbreyttum vörum í boði í stærstu verslunum Krónunnar og í Hagkaup. Þá munu matarfrumkvöðlar gefa smakk af sínum framleiðsluvörum í Iðnó á Nýsköpunarvikunni síðla föstudags.
Matarbúrið í Krónunni
Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli, hvetur fólk til að nýta sér tækifærið og kynna sér fjölbreytt vöruframboð frá smáframleiðendum. „Endilega kíkið við, pikkið í fjölskyldu og vini og nælið ykkur í hnossgæti. Í Matarbúrinu að þessu sinni er á sjötta tug matvara frá á þriðja tug félagsmanna, hverri annarri girnilegri!“ segir Oddný Anna.
Í fimm stærstu verslunum Krónunnar, á Granda, í Lindum, Flatahrauni, Mosfellsbæ og Selfossi, hafa verið sett upp svokölluð Matarbúr þar sem framleiðendur fá pláss á föstum stöðum í ákveðinn tíma.
„Matarbúrið er samstarfsverkefni Krónunnar og Samtaka smáframleiðenda matvæla. Samstarfið byrjaði árið 2020 með það að markmiði að að auka aðgengi að spennandi íslenskum matvörum og að hjálpa íslenskum smáframleiðendum að taka sín fyrstu skref inn á matvörumarkaðinn,“ segir á vef Krónunnar. Alls eru 27 framleiðendur sem taka þátt að þessu sinni.
„Matarmarkaður íslenskra smáframleiðenda“ í Hagkaup
Í Hagkaupum eru sérstakir dagar tileinkaðir smáframleiðendum en ráðgjafarfyrirtækið Karrot hefur unnið með Hagkaupum að skipulagningu Matarmarkaðar þar á bæ . „Hagkaup hefur í gegnum árin unnið markvisst að því að auka samstarfið með íslenskum frumkvöðlum sem eru að taka sín fyrstu skref á innlendum matvælamarkaði. Margir þessara frumkvöðla hafa náð góðum árangri og eru í dag með vel þekktar vörur á markaði,“ segir í frétt á vef Hagkaups.
„Við leggjum mikla áherslu á að reyna að virkja og auka innlenda framleiðslu og er matarmarkaðurinn liður í því. Það er einstaklega ánægjulegt hversu vel framleiðendur hafa tekið í hugmyndina, en þeir verða um 30 talsins á markaðnum. Úrvalið verður ekki bara viðamikið heldur líka fjölbreytt, en þar má til dæmis finna íslenskar pylsur, vorrúllur, geitaosta, brjóstsykur, sterkar sósur, te, bakkelsi, vitamín, ís, sinnep súkkulaði, pestó, marmelaði og svona mætti lengi telja. Það er kraftur í íslenskum matvælafrumkvöðlum og við hvetjum viðskiptavini til að kynnar sér þessar flottu innlendu vörur” segir Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups. Matarmarkaður smáframleiðenda í Hagkaup stendur til sunnudagsins 22. maí.
Nýsköpunarsmakk í Iðnó
Þess má jafnframt geta að nú er Nýsköpunarvikan í fullum gangi en matarfrumkvöðlar ætla að gefa gestum og gangandi að smakka sínar vörur í Iðnó í Reykjavík, föstudaginn 20. maí á milli klukkan 16.00 og 18.00.
„Frumkvöðlar í mat og drykk munu bjóða gestum upp á að smakka afurðir sínar. Það verður fjölbreytt úrval í boði: steikt témpeh frá Vegangerðinni, fersk krydd frá Mabrúka beint frá Túnis, rjómalíkjör frá Jöklu, drykkir frá Eimverk, Pestó frá Pesto.is, gos frá Könglum, íslenskt Kombucha frá Kubalubra, sinnep frá Svövu og stökkur ostur frá Lava Cheese,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.