Deila þessari síðu
Sýklalyfjaónæmi er án efa mesta heilsufarsógn sem blasir við mannkyninu á komandi áratugum. Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, segir í nýjasta hefti Læknablaðsins að þögull faraldur sýklalyfjaónæmis haldi áfram þótt búið sé að ná tökum á kórónuveirufaraldrinum. Þær leiðir til að sporna við sýklalyfjaónæmi eru einkum að nota fúkalyf skynsamlega í menn og dýr en ekki síður að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería, t.d. með matvælum og í landbúnaði. Dæmi eru um að sýklalyfjaónæmar bakteríur hafi fundist matvælum sem seld eru hér á landi.
10 milljón manns munu láta lífið af völdum sýklalyfjaónæmis árið 2050
Karl rifjar upp að það hafi vakið mikla athygli þegar skýrsla um sýklalyfjaónæmi hafi komið út í Bretlandi árið 2016. Þar var því spáð að ef ekkert yrði aðhafst myndu dauðsföll af völdum sýklalyfjaónæmra baktería verða 10 milljónir á ári árið 2050. Margir höfðu efasemdir og töldu að erfitt væri að ákveða hvort einstaklingar með ónæmar bakteríur létust vegna þeirra eða með þær. Karl segir frá nýrri rannsókn sem rennir stoðum undir þessa þróun.
„Í lok janúar síðastliðnum birtist í Lancet viðamikil grein um rannsókn þar sem leitast var við að svara þessari gagnrýni. Farið var yfir gögn frá 204 löndum og svæðum til þess að áætla sjúkdómsbyrði og fjölda dauðsfalla af völdum sýklalyfjaónæmra baktería í heiminum árið 2019. Helstu niðurstöðurnar voru að á bilinu 1,27-4,95 milljónir dauðsfalla tengdust sýklalyfjaónæmi. Með lægri tölunni var miðað við að í stað sýkinga af völdum ónæmra baktería kæmu sýkingar af völdum næmra baktería, en í þeirri hærri að í stað sýkinga af völdum ónæmra baktería kæmu engar sýkingar. Það er því ljóst að nú þegar eru sýkingar af völdum ónæmra baktería á meðal algengustu dánarorsaka í heiminum (þriðja algengasta dánarorsök ef miðað er við hærri töluna en tólfta algengasta ef miðað er við þá lægri).“
Ísland er með minnstu sjúkdómsbyrði af völdum sýklalyfjaónæmis
Rannsóknin leiddi í ljós að mikill munur var á dánartíðni og sjúkdómsbyrði eftir landsvæðum. Hún var hæst í Afríku sunnan Sahara en lægst í Ástralíu. Staðan er góð á Íslandi enn sem komið er.
„Í rannsókn á dánartíðni og sjúkdómsbyrði af völdum sýklalyfjaónæmis í Evrópu var áætlað að árið 2015 hefðu um 33.000 dauðsföll verið vegna sýklalyfjaónæmis, hlutfallslega flest í Suður- og Austur-Evrópu. Af öllum löndum Evrópu var Ísland með minnstu sjúkdómsbyrði og fæstu dauðsföllin af völdum sýklalyfjaónæmis. Sýkingum af völdum karbapenem-ónæmra E. coli og Klebsiella (KPE) heldur áfram að fjölga í Evrópu og veldur sú aukning miklum áhyggjum, enda eru þær bakteríur oft nær alónæmar,“ segir í grein Karls.
Hann segir að þótt Ísland sé með lægsta nýgengi slíkra sýkinga fjölgar þeim jafnt og þétt. „Fyrsti KPE-stofninn greindist (á Íslandi árið 2015, og greindust tveir á ári 2015-2018, 6 árið 2019 og 5 árið 2020. Allir þessir einstaklingar höfðu verið á ferðalagi í löndum með hátt nýgengi KPE. Nú nýlega greindist einn einstaklingur með KPE sem ekki var hægt að tengja við ferðalög til útlanda. Það er áhyggjuefni að KPE hafi smitast innanlands, hvort sem það er frá öðrum einstaklingi eða með innfluttum matvælum.“
Mikilvægt að snúa vörn í sókn
Karl segir að mikilvægt sé að sporna við þessari þróun og varðveita lágt nýgengi KPE og annarra fjölónæmra baktería á Íslandi.
Árið 2019 samþykkti ríkisstjórn Íslands aðgerðir gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á Íslandi og að stefnt yrði að því að Ísland væri í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Í framhaldi af því var skipaður starfshópur um aðgerðaáætlanir og fleira vegna sýklalyfjaónæmra baktería í dýrum, sláturafurðum og matvælum.
Starfshópurinn skilaði skýrslu í byrjun árs 2021 og lagði þar grunn að aðgerðaáætlun. Markmiðið var að varveita möguleika á árangursríkri meðferð við sýkingum og viðhalda þeirri góðu stöðu sem er á Íslandi með áherslu á „einnar heilsu“ nálgun (það er að taka tillit til manna, dýra, matvæla og umhverfis).
Í skýrslunni voru sett fram fjögur meginmarkmið til að ná fram grunnmarkmiðinu.
- Að auka þekkingu og skilning almennings og fagstétta á sýklalyfjaónæmi í anda „einnar heilsu“.
- Að stuðla að markvissri og skynsamlegri notkun sýklalyfja í dýrum og fólki.
- Að greina betur stöðuna á útbreiðslu sýklalyfjaónæmis í íslenskum landbúnaði og íslensku umhverfi.
- Að takmarka útbreiðslu ónæmis með forvörnum, vöktun og íhlutandi aðgerðum.
Öll áhersla lögð á að kveða niður kórónuveiruna
Karl segir að því miður hafi kórónuveirufaraldurinn orðið til þess að öll áhersla heilbrigðiskerfa heimsins hefur farið í að bregðast við honum.
Heimurinn hefur þannig misst mikilvæga samfellu í aðgerðum gegn sýklalyfjaónæmi. Það á eftir að koma í ljós hvaða áhrif það mun hafa á útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.
Í niðurlagi greinar Karls G. Kristinssonar segir að nú verði allir að taka höndum saman með þverfaglegu átaki og „einnar heilsu“ nálgun gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Hann væntir þess að ríkisstjórnin sýni málinu stuðning með metnaðarfullri aðgerðaáætlun, þannig að Ísland verði í fararbroddi í aðgerðum gegn sýklalyfjaónæmi.