Deila þessari síðu
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, gaf nýlega út skýrslu þar sem bent er á að rannsóknir vanti tilfinnanlega á efnainnihaldi og hollustugildi ýmissa unninna grænkeravara. Meðal annars er fjallað um vörur sem framleiddar eru til þess að líkja eftir dýraafurðum. Það eru vörur úr mjólkurlíki, s.s. jógúrt og ostar, og kjötlíki, s.s. pylsur og hamborgarar. Einnig er bent á mikið framboð á drykkjarvörum sem auglýstar eru sem grænkeravænar. Vörurnar eru gjarnan framleiddar með aðstoð sterkja, sykra, olía og próteina sem eru mikið unnin, auk þess sem bragðefnum, litarefnum og öðrum aukaefnum er gjarnan bætt við til þess að bæta útlit, bragð og endingu.
Þróunin er hröð
Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að ekki sé verið að draga í efa hollustu óunninna vara í þessum flokki. Grænmeti, ávextir og kornvörur stuðla að bættri heilsu fólks eru eftir sem áður helstu vopnin gegn ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum. Það sem fyrst og fremst er verið að varpa ljósi á er að meðan lífsstíll grænkera nýtur sífellt meiri vinsælda og þar með eftirspurn eftir vörum sem undir hann falla þá er erfiðara að fylgjast með hraðri þróun á markaðnum.
Jákvæð áhrif á náttúru og lýðheilsu
Þrátt fyrir varnaðarorð WHO þá eru jákvæð áhrif þess að kjósa grænar matvörur margvísleg, ekki aðeins á lýðheilsu heldur einnig á náttúruna og umhverfið. Á 21. öldinni höfum við séð örar breytingar á matvælaframleiðslu heimsins og auknar áherslur í landbúnaði á skynsamlega nýtingu ræktar- og beitilanda. Fjölbreytni í fæðuvali er ein af grunnforsendum lýðheilsu heimsins og mikið er rætt um að auka almenna neyslu á grænum matvælum, sérstaklega á Vesturlöndum.
Rannsóknir skortir
Stofnunin telur nauðsynlegt að sýna fyllstu aðgát í vöruþróun á matvælum ekki síst þegar um er að ræða nýjar vörur með óþekkt næringargildi. Hún bendir á að samanburðarrannsóknir yfir lengri tíma vanti og meiri upplýsingar þurfi til að greina þau áhrif sem mikið unnar grænkeravörur hafa á heilsu fólks.