Deila þessari síðu
Kanna á hagkvæmni þess að reisa grænan auðlindagarð í Reykholti í Biskupstungum. Á svæðinu eru nú þegar sterk garðyrkju- og ferðaþjónustufyrirtæki sem reiða sig á mikið rafmagn og heitt vatn. Þessi fyrirtæki, ásamt Orkídeu og Sveitarfélaginu Bláskógabyggð skrifuðu á dögunum undir viljayfirlýsingu að ráðast greiningarvinnu um fýsileika auðlindagarðs á svæðinu. Ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, var viðstödd undirritunina og hvatti þátttakendurna til dáða.
Grænn auðlindagarður (e. Eco industrial Parks) er samheiti yfir sameiginlegt svæði sem fyrirtæki starfa á með það markmið að ná fram betri nýtni auðlinda. Þá er átt við hreinni framleiðslu, aukna samvinnu fyrirtækja, samvinnu við að draga úr loftslagsbreytingum og mengun. Þá er markmiðið í rekstrinum jafnframt að samnýta innviði, nýta glatvarma, bæta nýtingu í öllum skilningi og stýra áhættu.
Í fréttatilkynningu frá Orkídeu segir að grænn auðlindagarður sé liður í því að byggja upp hringrásarkerfi í framleiðslu, sem byggist á því lágmarka úrgang og hámarka nýtingu auðlinda.
Jafnframt gefa auðlindagarðar, grænir sem aðrir, færi á sameiginlegum innkaupum orku og þjónustu sem gæti verið hagfelld fyrir einstök fyrirtæki garðsins.