Deila þessari síðu
Eymundur Bogason hefur starfað sem þjónn á Moss Restaurant Blue Lagoon síðastliðin þrjú ár. Eins og á öllum öðrum veitingastöðum hafði heimsfaraldurinn mikil og djúp áhrif á starfsemina þegar hann skall á snemma árs 2020. Í einu vetfangi breyttist allt; engir gestir, starfsandinn varð annar og óttinn um að missa vinnuna varð raunverulegur.
„Bláa lónið er náttúrulega ekkert nema líf og umferð svona undir eðlilegum kringumstæðum og mjög vinsæll áfangastaður fyrir ferðamenn sem koma til Íslands. En þegar covid kom varð allt mjög erfitt eins og á flestum sem öllum öðrum stöðum geri ég ráð fyrir,“ sagði Eymundur þegar hann var spurður út í hvernig aðstæðurnar breyttust með tilkomu faraldursins.
„Þetta voru erfiðir tímar en við erum komin á rétta braut og stefnum klárlega hátt.“
Um 800 starfsmenn eru á launaskrá að jafnaði í Bláa lóninu og meðalaldurinn er 33 ár.
Selja hundruð tonna af mat
Veitingarekstur í Bláa lóninu er umfangsmikill og nemur um 22% af heildartekjum fyrirtækisins. Í ársskýrslu fyrir árið 2019, áður en kórónuveiran bankaði upp á, er sagt frá því að um 290 tonn af ávöxtum og grænmeti séu keypt árlega fyrir gesti Bláa lónsins, þar af tæp 26 tonn af banönum! Í gegnum veitingastaðina fóru um 25 tonn af lambakjöti, yfir 50 tonn af skyri sem notað er í boozt-drykki og 37 tonn af hveiti í brauðbaksturinn. Yfir 43 tonn af fiski eru keypt úr Grindavík og yfir 20 tonn af nautakjöti. Það munar um minna.
Öðruvísi en flestir aðrir staðir
Bláa lónið er einn þekktasti og vinsælasti ferðamannastaður landsins. Þangað koma um milljón gestir á ári sem er boðið upp á ógleymanlega upplifun þegar þeir mæta á staðinn. Starfsfólk Moss Restaurant hefur staðið sig með prýði í því að gefa gestum sínum allt það besta sem býðst í veitingageiranum að sögn Eymundar.
Upplifun sem býr til minningar
„Við stefnum á Michelin-stjörnuna. Við bjóðum einungis upp á samsetta matseðla með gæðahráefnum og réttum í hæsta gæðaflokki. Svo er ein af okkar helstu sérstöðum öll vínin sem við bjóðum upp á í pörun. Bláa lónið er með tengingar í víniðnaðinn um allan heim, í Frakklandi, Ítalínu og Ástralíu svo fátt sé nefnt. Ég myndi alveg segja að það fullkomni upplifunina.“ Eymundur segir það vera helsta markmið starfsfólksins að gera gesti sína glaða.
Stolt Bláa Lónsins að sögn Eymundar er að sjálfsögðu umhverfið. Það er geysilega fallegt landslag á þessu svæði og hótelið sjálft fellur vel að umhverfinu.
„Það bara passar svo vel að vera með þetta umhverfi, þetta hótel og allt sem lónið hefur upp á að bjóða, að geta boðið upp á mat og drykk sem jafnast á við alla þessa fegurð.“
Allt komið á fulla ferð
Eymundur segir það hafa verið ákveðin áskorun að koma öllu af stað í covid. Lónið hafi unnið mikið með að bjóða fólki búsettu á Íslandi alls kyns tilboð og fleira. En nú er allt komið á fulla ferð, bæði Íslendingar og ferðamenn mæta á staðinn til þess að upplifa allt sem Bláa lónið hefur upp á að bjóða.