Deila þessari síðu
Ísey útflutningur ehf. hefur rift leyfissamningi við rússneska félagið IcePro um framleiðslu og dreifingu á skyri undir merkjum ISEY-skyr fyrir Rússlandsmarkað. Ísey útflutningur ehf. hefur haft leyfissamninginn til skoðunar undanfarnar vikur vegna stríðsreksturs Rússlands í Úkraínu.
Ísey útflutningur ehf. annast kaup og sölu mjólkurafurða á erlendri grund og gerð leyfissamninga fyrir framleiðslu á skyri.
„Samningnum hefur nú verið rift og búið er að tilkynna ákvörðunina til forráðamanna IcePro í Rússlandi,“ segir í fréttatilkynningu frá Ísey útflutningi ehf. sem er systurfyrirtæki Mjólkursamsölunnar,
Samhliða þessari ákvörðun hefur Kaupfélag Skagfirðinga dregið sig út úr eignarhaldi á félaginu IcePro. „Því er ljóst að framleiðslu á skyri undir merkjum ISEY-skyr í Rússlandi verður hætt og þar með er engin starfsemi á vegum þessara fyrirtækja í Rússlandi.“
„Í ljósi umræðna um sölu á Ísey skyri í Rússlandi er vert að taka fram að aldrei hefur verið flutt út skyr frá Íslandi til Rússlands.“
„Árið 2018 hóf framangreint rússneskt félag, í eigu þarlendra aðila og áður Kaupfélags Skagfirðinga, framleiðslu og dreifingu á Ísey skyri í Rússlandi samkvæmt umræddum leyfissamningi sem nú hefur verið rift,“ segir í tilkynningu sem er undirrituð af Einari Einarssyni rekstrarstjóra Íseyjar og Sigurjóni R. Rafnssyni, aðstoðarkaupfélagsstjóra Kaupfélags Skagfirðinga.
Velta tæpir 2,2 milljarðar króna
Í síðasta ársreikningi Íseyjar útflutnings, sem undirritaður var í lok mars á síðasta ári, kom fram að hagnaður hefði numið rúmum 150 milljónum árið 2020. Eignir voru skráðar 642 milljónir en rekstrartekjur tæpir 2,2 milljarðar króna.
Þann 1. september 2020 var 100% eignarhlutur Mjólkursamsölunnar ehf. í félaginu færður með skiptingu yfir nýtt félag, MS erlend starfsemi ehf. sem er í eigu sömu aðila og Mjólkursamsölunnar ehf. sem eru Auðhumla svf. með 80% hlut og Kaupfélag Skagfirðinga svf. með 20% hlut.
Hár launa- og starfsmannakostnaður hjá Ísey
Ari Edwald var framkvæmdastjóri Íseyjar útflutnings ehf. þar til í byrjun þessa árs þegar honum var sagt upp störfum. Laun og starfsmannakostnaður fyrirtækisins var 117,6 milljónir og meðalfjöldi stöðugilda 6,2 árið 2020. Að meðaltali er þessi kostnaður tæpar 19 milljónir króna á ári fyrir hvert stöðugildi, sem gerir 1,58 milljónir á mánuði.
Ísey útflutningur ehf. átti 100% hlut í starfsemi Íseyjar í Bretlandi og 27% hlut í Ísey Skyr Bar ehf. samkvæmt ársreikningi 2020.
Stjórnarformaður Ísey útflutnings ehf. er Elín Margrét Stefánsdóttir, sem gegnir sömu stöðu hjá MS.