Deila þessari síðu
Það eru ótal mörg ráð sem til eru til að minnka sóun og hafa jákvæðari áhrif á umhverfið. Hér koma 10 ráð sem hafa gagnast mér vel til að koma í veg fyrir sóun og spara þannig peninga og um leið jörðina, sem börnin okkar erfa.
1. „Best fyrir“ og „síðasti neysludagur“.
Matur er oft og jafnvel oftast í góðu lagi mikið lengur en þessar dagsetningar segja til um. Finnið lyktina, ef lyktin fín, er í góðu lagi með matvælin.
2. Nota útrunna mjólk í vöfflur og pönnukökur og þess háttar.
3. Ég tek mér tíma í að ganga frá mat þegar við förum í frí. Þá bæði elda ég mat sem þarf að elda og frysti hann og sumt frysti ég beint, eins og ávexti, grænmeti og annað sem þolir frystingu og getur skemmst á meðan við erum í burtu. Fleira er hægt að geyma í frysti. Ég geymi t.d. alltaf parmesan-ost í frysti. Ég tek hann út úr frysti svona 1-2 klst. áður en ég nota hann. Og allt í lagi þó ég gleymi. Gengur ágætlega að raspa hann samt frosinn. Svo set ég hann bara aftur í frysti.
4. Ódýrara er að elda heima og umhverfisvænna en að þeytast um allan bæ að kaupa mat í allskonar umbúðum sem eru einnota yfirleitt.
5. Drekka vatn, það er ódýrasti, hollasti, umhverfisvænasti og besti drykkurinn. Venja börn á vatn strax.
Vatn er að mínu viti dýrmætasta auðlindin.
6. Setja minna á diskinn, það er alltaf hægt að fá sér aftur. Ef manni hættir við að borða of mikið getur verið nóg að nota minni diska. Ótrúlegt hvað það virkar vel.
7. Ekki setja ávexti og grænmeti í poka í búðum, til að spara pokana fyrir jörðina. Bara skola er maður kemur heim og stundum afhýðir maður meira að segja ávextina.
Íslendingar fleygja um 110 þúsund plastpokum í ruslið á hverjum degi og það tekur þúsund ár fyrir einn plastpoka að brotna niður.
8. Margir fara betur með matinn þegar keypt eru gæði.
9. Ein mikilvægasta breytan til að draga úr kolefnisfótspor matvæla að minnka kjötneyslu. Linsur eru t.d. ódýr og afar bragðgóður matur. Ég er með mikið að uppskriftum að súpum og pottréttum úr ljúffengum linsum í bókunum mínum. Um 19% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda skrifast á kjötiðnaðinn. Sumir segja að 19% sé vanáætlað, að talan sé hærri.
10. Þó það hljómi e.t.v. ekki rétt í fyrstu þá getur verið töluverður sparnaður í því að vinna aðeins styttri dag (til dæmis ef maður er með litla krakka). Þá er t.d. hægt að skipuleggja matarinnkaup og matmálstíma, nýtt afganga og almennt hugsað heila hugsun.