Deila þessari síðu
Íslenskur matvælaiðnaður veltir 173 milljörðum króna á ári og um 5.500 manns eru starfandi í greininni sem er tæplega 3% af heildarfjölda vinnandi fólks í landinu. Sýnileg batamerki eru eftir erfiðleika í kjölfar heimsfaraldurs, veltan eykst og störfum fjölgar. Eftirspurn er vaxandi en aðfangakostnaður hefur hækkað skarpt síðustu mánuði og óvissa vegna stríðins í Úkraínu hefur margvísleg neikvæð áhrif á matvælamarkaði í heiminum.
Þetta kom fram í erindi Úlfars Biering Valssonar hagfræðings á opnum fundi sem Matvælaráð Samtaka iðnaðarins stóð fyrir í vikunni um sókn íslensks matvælaiðnaðar.
Úlfar sagði á að þrátt fyrir róstursama tíma bendi ýmsir hagvísar í rétta átt. Kaupmáttur almennings er góður, fólksfjölgun er nokkur og aukinn fjöldi ferðamanna eykur eftirspurn eftir matvælum. Hins vegar eru blikur á lofti, sérstaklega sem tengjast stríðinu í Úkraínu og stöðu efnahagsmála almennt á Íslandi og í helstu viðskiptalöndum.
Miklar áskoranir blasa við matvælaframleiðendum vegna hækkunar á verði hrávara og flutninga.
Tafir á afhendingu aðfanga og flöskuhálsar í framleiðslukeðjum geti reynst kostnaðarsamar. Úlfar sagði einnig að miklar innlendar launahækkanir væru áhyggjuefni líkt og vaxtahækkanir sem nú væru hafnar. Hátt og hækkandi raungengi í uppsveiflu væri jafnframt töluverð áskorun í fyrirtækjarekstri.
Launakostnaður er stærsta áskorunin
Á fundinum var fjallað um framtíðartækifærin í fjölbreyttum matvælaiðnaði auk þess sem kynntar voru niðurstöður könnunar um helstu áskoranir og áherslur matvælafyrirtækja. Þar kom fram í máli Rannveigar Tryggvadóttur, formanns Matvælaráðs og framkvæmdastjóra Kötlu, að framleiðendur bera helst kvíðboga fyrir hækkandi launum og launatengdum gjöldum.
Aðspurðir sögðu 84% þeirra að launakostnaður væri stærsta áskorunin í rekstrinum. 76% svarenda segja nokkuð líklegt eða mjög líklegt að fyrirtækið grípi til hagræðingaraðgerða á árinu 2022.
Fundurinn var sendur út á Facebook-síðu SI og er hægt að nálgast upptöku þar. Annað ítarefni, s.s. niðurstöður úr skoðanakönnun á meðal matvælafyrirtækja, af fundinum er að finna á vef Samtaka iðnaðarins.