Deila þessari síðu
Brugghús mega selja bjór og annað áfengi úr eigin framleiðslu frá og með 1. júlí á þessu ári. Ný lög um aukið frelsi í viðskiptum með bjór og aðra áfenga drykki voru samþykkt á Alþingi í vikunni. Upphaflega stóð til að þau tækju gildi um áramót en var flýtt með þeim rökum að mikilvægt væri að unnt væri að bjóða upp á sölu á framleiðslustað á háannatíma ferðaþjónustunnar í sumar. Framleiðendur þurfa að sækja um leyfi til sýslumanns og þeir mega ekki framleiða meira en 500 þúsund lítra á ársgrundvelli. Lagabreytingin mun því einkum gagnast smærri áfengisframleiðendum, svokölluðum handverksbrugghúsum.
Styrkir rekstrargrundvöll lítilla brugghúsa
Ýmis sjónarmið komu fram við afgreiðslu málsins í allsherjar- og menntamálanefnd á Alþingi. „Það er erfitt fyrir lítil brugghús að koma vörum sínum í sölu hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sem hefur einkarétt á smásölu áfengis, því myndi það styrkja rekstrargrundvöll handverksbrugghúsa um allt land að heimila þeim smásölu að vissum skilyrðum uppfylltum,“ sagði í umfjöllun nefndarinnar.
20 umsagnir endurspegla ólík sjónarhorn
Gestir allsherjar- og menntamálanefndar töldu sumir hverjir jákvæð áhrif felast í frumvarpinu, t.d. út frá atvinnu-, ferðaþjónustu-, framleiðslu- og byggðasjónarmiðum. Alls komu 20 fjölbreyttar umsagnir um málið frá hinum ýmsu aðilum, s.s. Samtökum iðnaðarins, Samtökum handverksbrugghúsa, Æskunni – barnahreyfingu IOGT og Embætti landlæknis. Samkeppniseftirlitið lagði blessun sína yfir lagabreytinguna en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins taldi frumvarpið fela í sér „algjöra stefnubreytingu í áfengismálum á íslandi og forsendubrest fyrir einkaleyfi ÁTVR“ og raunar stangast á við skilyrði Evrópuréttar og ganga í berhögg við þá áfengisstefnu sem fylgt hefur verið hér á landi.
Vill selja áfengi á helgidögum þjóðkirkjunnar
Árni Hafstað, bruggari hjá Gæðingi, fannst ekki nógu langt gengið og „út í hött“ að ekki mætti afhenda áfengi á helgidögum þjóðkirkjunnar ásamt öðrum tilteknum frídögum. „Það er ekki síst á þessum dögum, sem ástæða er til að gera sér glaðan dag. Fólk er gjarnan í fríi og vill nota tækifærið til að gera eitthvað skemmtilegt; til dæmis að fara í brugghústúr,“ sagði Árni í umsögn sinni.
Félag atvinnurekenda taldi að stíga ætti stærri skref „í því skyni að draga úr óreiðu og óvissu á áfengismarkaðnum og skapa vaxandi atvinnugrein stöðugt og fyrirsjáanlegt starfs- og samkeppnisumhverfi.“
Forsvarsfólk Íslenskrar hollustu, sem framleiðir áfengi, töldu lagabreytinguna stuðla að sanngirni á markaði, styðja við lítil íslensk fyrirtæki og styrkja nýsköpun í drykkjarframleiðslu.