Deila þessari síðu
Norrænu Embluverðlaunin voru veitt í Osló í kvöld í þriðja sinn. Íslendingar riðu ekki feitum hesti frá verðlaunaathöfninni og hlutu engin verðlaun þetta árið frekar en í síðustu tvö skipti. Í ár voru það Norðmenn og Danir sem unnu þrenn verðlaun hvert og Svíþjóð hreppti ein verðlaun. Grænlendingar, sem tóku þátt í fyrsta skipti, fengu engin verðlaun líkt og Færeyingar, Álandseyingar, Íslendingar og Finnar. Markmið Embluverðlaunanna er að gera norrænum mat- og matarmenningu hátt undir höfði og vekja athygli á því sem vel er gert í matvælageiranum.
Handhafar Embluverðlaunanna í flokkunum sjö voru eftirfarandi:
Matvælaiðnaðarmaður Norðurlanda
Undredal stølsysteri, Noregi.
Hráefnisframleiðandi Norðurlanda
Fredriksdals Kirsebærvin, Danmörku
Embluverðlaun fyrir mat fyrir marga
The Junk Food Project, Danmörku.
Miðlun um mat
Det Grønne Museum – Danmörku.
Mataráfangastaður Norðurlanda
Kvitnes gård – Noregi
Matvælafrumkvöðull Norðurlanda
Andreas Sundgren, Brännlands Cider, Svíþjóð
Embluverðlaun fyrir mat fyrir börn og ungmenni
Geitmyra Credo, Noregi.
Embluverðlaunin, sem veitt eru á tveggja ára fresti, voru nú haldin í þriðja sinn en þau voru fyrst veitt í Danmörku árið 2017.
Árið 2019 voru verðlaunin veitt á Íslandi en vegna heimsfaraldursins varð að fresta þeim árið 2021 þar til nú.
Það eru norrænu bændasamtökin sem eiga og reka Embluverðlaunin en þau njóta ríkulegs stuðnings frá Norrænu ráðherranefndinni.
Meðfylgjandi myndir eru fengnar af Facebook-síðu Embluverðlaunanna.
Nánari upplýsingar um verðlaunahafana og alla aðra sem voru tilnefndir má nálgast á vefsíðu Embluverðlaunanna, www.nordicfoodaward.com