Deila þessari síðu
Vinsældir hvalaskoðunar við Íslandsstrendur hafa vaxið gríðarlega síðustu áratugi og nú er svo komið að fjölmörg fyrirtæki sigla árið um kring með fólk til funda við hinar tignarlegu skepnur. Mörg hundruð störf hafa skapast í kringum þessa skemmtilegu náttúruupplifun og útlit er fyrir að þeim fjölgi á næstu árum. Í kringum Reykjavík eru góðar aðstæður til hvalaskoðunar og nokkur fyrirtæki hafa í á annan áratug siglt út frá Reykjavíkurhöfn með góðum árangri.
Reynar Ottósson er framkvæmdastjóri hjá Whale Safari sem gerir út RIB-báta í um það bil sex mánuði á ári. Fyrirtækið hóf siglingar nú í aprílbyrjun eftir vetrarhlé. Hann var í óða önn að græja hlífðargalla og björgunarvesti í húsi Whale Safari á Ægisgarði fyrir komandi vertíð þegar okkur bar að garði.
Hlutirnir eru að færast í samt lag
Reynar segir útlitið ágætt og að fyrirtækið sé með fína bókunarstöðu fyrir sumarið.
„Reyndar er þegar orðið fullbókað í margar ferðir næstu vikurnar, sem er góðs viti. Síðustu tvö árin hafa verið mjög sérstök svo ekki sé meira sagt, en nú hyllir undir að hlutirnir séu að færast í samt lag. Við vonum bara að veðrið vinni með okkur næstu mánuðina,“ segir Reynar.
Síðasta sumar gekk ótrúlega vel þrátt fyrir kórónufárið
„Það var náttúrulega mikil óvissa vegna covid og við fórum seinna af stað en venjulega. En í byrjun júní fóru ferðamennirnir að birtast. Sérstaklega var mikið af fólki frá Bandaríkjunum í byrjun og svo bara allstaðar að úr heiminum. Það var líka mikið af hval í Faxaflóa síðasta sumar. Mikið af hnúfubak og hrefnu, og svo auðvitað höfrungar og hnísur. Ég man varla eftir ferð þar sem við sáu ekki eitthvað.“
Hvernig er ferðunum hjá ykkur háttað?
„Við erum með áætlunarferðir sem eru tveir tímar þar sem við blöndum saman hefðbundinni hvalaskoðun, njótum útsýnisins til Reykjavíkur og skoðum lunda. Reyndar erum við líka með klukkutíma siglingu á sumrin sem er bara lundaskoðun og hefur verið mjög vinsæl. Svo erum við líka með töluvert af sérferðum en þá bókar fólk allan bátinn og getur ráðið lengd ferðarinnar. Skipstjórarnir okkar eru allir reynsluboltar og leiðsögumennirnir sérfræðingar á sínu sviði sem koma víða að úr heiminum til að vinna fyrir okkur,“ segir Reynar.
Hver er munurinn á því að fara með ykkur og svo stærri skipum sem bjóða upp á hvalaskoðun?
„Það komast tólf manns í hverja ferð hjá okkur og allir eru í jafn góðum sætum með jafna möguleika á að fylgjast með öllu sem gerist. Við förum líka hraðar yfir en stóru skipin og getum því farið um stærra svæði í leit að dýrunum. Fólkið kemst líka nær og þótt við fylgjum ströngum reglum um það hvernig nálgumst hvalina og hvernig við hegðum okkur í skoðuninni þá kemur það fyrir að þeir leggjast alveg upp að bátunum. Það er alltaf ótrúlega gaman að sjá viðbrögð fólks þegar þetta gerist.“
Sterk og sérstök upplifun fyrir marga að sjá hval
Reynar segir að Íslendingar séu heppnir að vera með eitt af bestu hvalaskoðunarsvæðum í heimi steinsnar frá höfuðborginni. Það er alla jafna stutt að fara til þess að finna þá og stundum ganga þeir hérna nánast upp í fjöru. Það sé líka gefandi að verða vitni að jákvæðum og sterkum tilfinningum fólks þegar það sér hvali.
„Fólk hefur stundum dreymt um það alla ævi að sjá hvali sínu náttúrulega umhverfi og þegar sá draumur rætist upplifir það oft sterkar tilfinningar. Við finnum oft fyrir miklu þakklæti eftir vel heppnaðar ferðir og það er virkilega ánægjulegur hluti af starfinu að fá að vera hluti af svona jákvæðri lífsreynslu hjá fólki.“
Verðum að bera gæfu til að vernda náttúruna okkar
Reynar telur að framtíðin sé björt í ferðaþjónustunni og auðvitað sé náttúran sjálf aðalaðdráttaraflið fyrir ferðamenn líkt og áður.
„Hvort sem það eru jöklar eða eldfjöll, miðnætursól eða norðurljós, hvalir eða lundar eða hvað þá eru það náttúrupplifanir sem fólk sækist fyrst og fremst eftir. Með þetta í huga og ef við berum gæfu til að vernda náttúruna okkar þá er þetta svo sannarlega fjársjóður til framtíðar. Það er engin ástæða til annars en að líta framtíðina björtum augum og það eru forréttindi fá að taka þátt í skynsamlegri nýtingu þessarar auðlindar,“ segir Reynar Ottósson, framkvæmdastjóri Whale Safari.