Deila þessari síðu
Ein stærsta vefverslun landsins, Heimkaup, hefur hafið sölu á áfengi. Í fréttatilkynningu frá Heimkaupum segir að viðskiptavinir þurfi að samþykkja kaupin með rafrænum skilríkjum sem sanna áfengiskaupaaldur. Milliliðir í viðskiptunum er danska fyrirtækið Heimkaup ApS en samkvæmt íslenskum lögum má ÁTVR eitt selja áfengi beint til neytenda. Heimkaup fer því svipaða leið og önnur fyrirtæki eins og t.d. Sante sem hafa um nokkurt skeið nýtt sér glufu í áfengislöggjöfinni sem leyfir póstverslun með áfengi.
Verðlagning áþekk og í Ríkinu
Heimkaup býður upp á bjór, léttvín og annað áfengi í heimsendingu frá innlendum birgjum. Meðal annars má finna Víking–rútu með 10 hálfslítra dósum á 4.390 krónur. Í Vínbúðinni kostar varan nákvæmlega það sama. Aðrar vörur eru á svipuðu ef ekki sama verði og í Ríkinu.

„Þetta eru tímamót að mörgu leyti og ánægjulegt að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á þessa eðlilegu og sjálfsögðu þjónustu fram á kvöld á virkum dögum og báða helgardagana að auki. Það er löngu tímabært að bjóða upp á úrval af bjór og léttum vínum í vefverslun okkar og ég er viss um að viðtökurnar verða góðar,“ er haft eftir Pálma Jónssyni, forstjóri Heimkaupa, í fréttatilkynningu.