Deila þessari síðu
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi ráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, mun leiða svokallaðan spretthóp sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur ákveðið að skipa. Hópnum er ætlað að skila ráðherra tillögum og valkostagreiningu vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi. Aðrir í hópnum eru þær Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Saga Guðmundsdóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Hópurinn skal greina einstaka valkosti í stöðunni og huga sérstaklega að fæðuöryggi, verðlagi og hagsmunum neytenda og bænda.
Þróun sem kippir stoðum undan rekstri bænda
Tillögur eiga að liggja fyrir 13. júní næstkomandi og verða þær teknar fyrir og kynntar ríkisstjórn daginn eftir. Í tilkynningu frá matvælaráðuneytinu segir að verð á helstu aðföngum hafi hækkað gríðarlega í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og litlar líkur séu á að þær hækkanir gangi til baka á næstu mánuðum eða jafnvel misserum.
„Þessi þróun mun, að öllu óbreyttu, kippa stoðum undan rekstri bænda m.a. flestra sauðfjár- og nautgripabúa. Þannig kunni framboð á innlendri vöru að dragast verulega saman næstu misseri með tilheyrandi áhrifum á fæðuöryggi,“ segir á vef ráðuneytisins.
Munum yfirstíga tímabundnar áskoranir
Haft er eftir Svandísi að þrátt fyrir allt sé ljós í myrkrinu. ,,Framtíð matvælaframleiðslu á Íslandi er björt, þrátt fyrir að nú þurfum við að yfirstíga tímabundnar áskoranir sem leiða af stríðsrekstri Rússa í Úkraínu,“ segir Svandís.