Deila þessari síðu
Ég ætla að skrifa pistla á síðuna Matland.is og eðli málsins samkvæmt verða þeir að fjalla um mat. Nú er ég enginn sérstakur sælkeri, jú mér þykir góður matur góður, en fyrst og fremst lít ég á hann sem nauðsynlega næringu. Það er því lítil hætta á að ég detti í þann gír að birta uppskriftir eða sökkvi mér í drauma um góðgæti frá framandi löndum.
Ég er alinn upp sem alþýðustrákur í Reykjavík og Kópavogi sem fékk nú alltaf eitthvað að éta en maturinn var sjaldnast mál málanna hjá mér.
Mamma eldaði mest oní okkur, sá um soðninguna sem var ósköp indæl en ekkert til að hrópa um í fjarlægum sóknum.
Nálægðin við ORA minnti oft á sig. Pabbi var hins vegar sjálflærður kokkur á togurum og farskipum, en flíkaði þeirri kunnáttu sinni ekki mikið á heimavelli. Jú, stöku sinnum sá hann um matreiðsluna eftir að hann hætti á sjónum. Mataræði æsku minnar verður því sjaldnast til umræðu hjá mér.
En matur á sér margar hliðar. Eitt nýlegt ferskt dæmi sýnir það.
Í sjónvarpi allra landsmanna var sagt frá bændum í Hrunamannahreppi sem framleiða svínakjöt af dýrum sem að mestu leyti eru fóðruð á korni sem þeir framleiða sjálfir. Burtséð frá því hvort við borðum svínakjöt eður ei þá segir þessi frétt okkur þá sögu að fari allt á versta veg í yfirstandandi stríðsátökum þá geta íslenskir bændur stuðlað áfram að því að treysta fæðuöryggi okkar.
Það er nefnilega þannig að stærstur hluti þess korns sem íslensk húsdýr fá í stallinn sinn er fluttur inn. Kornið kemur úr ýmsum áttum og kostar áreiðanlega mismikið eftir því hvaðan það kemur. En verð á dýrafóðri er, rétt eins og verð á olíu og öðru efni til kyndingar, háð lögmálum framboðs og eftirspurnar. Svo þegar frjósömustu ökrum Evrópu – svörtu moldinni í Úkraínu – er breytt í leikvelli fyrir skriðdreka og önnur stríðstól hefur það bæði bein og óbein áhrif jafnt á íslenska bændur sem viðskiptavini Bónuss og Hagkaupa.
Úkraína eitt auðugasta matarbúr Evrópu
Það fór ekki miklum sögum af Úkraínu áður en Pútín réðst til atlögu. Jú, margir höfðu tekið eftir fulltrúum landsins í evrópsku söngvakeppninni, en þess utan var ekki mikið um fréttir þaðan hér uppi á Íslandi. Samt er þetta eitt allra auðugasta matarbúr Evrópu og heimsins alls. Landbúnaður þess er geysiöflugur og svo mikill að vöxtum að framleiðsla hans gæti framfleytt 600 milljónum manns. Það er semsé til matur ofan í alla Evrópu, þótt þjóðin sé svipuð Póllandi og Spáni að mannfjölda, 44 milljónir.
Þjóðarblóm Úkraínu er sólblómið og landið er stærsti framleiðandi heimsins á sólblómaolíu. Úkraína er á topp fimm í heiminum í framleiðslu á byggi, maís, kartöflum, rúgi, hunangi og öðrum býflugnaafurðum, að ógleymdu hveiti, ostum og kjúklingum. Það hriktir því í ýmsum markaðsstoðum verði verulegur samdráttur vegna ófriðarins. Þessu til viðbótar er landið auðugt af alls kyns málmum og orkulindum en það er allt önnur Ella en hér er á dagskrá.
Svona geta atburðir sem við fyrstu sýn virðast víðsfjarri öllum matseðlum haft umtalsverð áhrif á það hvernig matur kemur á borðin hér uppi á klakanum.
Og er þá „bara“ einu stríði um að kenna. Svo er það loftslagið, maður lifandi…
Það bíður næsta pistils, eða þarnæsta.