Deila þessari síðu
Með aukinni umhverfisvitund neytenda og auknum kröfum um upplýsingagjöf fyrirtækja verður enn mikilvægara en áður að fyrirtæki reikni og upplýsi um kolefnisspor framleiðsluvöru sinnar. Kolefnisspor er sú heildarlosun gróðurhúsalofttegunda sem einstaklingur, viðburður (t.d. tónlistarhátíð), fyrirtæki (t.d. álframleiðandi) eða framleiðsla tiltekinnar vöru (t.d. kjöts) veldur á einu ári.
Sporið er myndlíking fyrir áhrifin sem einstaklingurinn, viðburðurinn, fyrirtækið eða varan hefur á loftslagið svipað og þegar við skiljum eftir fótspor í rökum sandi eða snjó.
Stærð og dýpt fótsporsins fer eftir því hversu stór og þung við erum. Sama gildir um kolefnisspor. Því stærra sem kolefnisspor tiltekinnar vöru er því meiri áhrif hefur framleiðsla og neysla vörunnar á loftslagið.
Kolefnissporið er oft gefið upp sem losun gróðurhúsalofttegunda í kg koldíoxíðsígilda á hvert kg af framleiddri vöru. Kolefnisspor matvæla er oftast gefið upp í kg koldíoxíðsígilda á kg af ætum bita (beinlaus og/eða roðlaus biti þar sem það á við).
Ýmsa staðla má nýta við mat á kolefnisspori matvæla, s.s. ISO-staðla, staðla og leiðbeiningar frá GHG-Protocol og evrópska staðla og leiðbeiningar. Staðlarnir eiga það sameiginlegt að byggja á leiðbeiningum IPCC (Milliríkjanefnd SÞ um loftslagsbreytingar) varðandi útreikninga og aðferðafræði.
Við mat á kolefnisspori er losun flokkuð eftir því hvar hún á sér stað í virðiskeðju fyrirtækis.
Í fyrsta lagi er um að ræða losun vegna starfsemi sem er í eigu fyrirtækisins eða er stýrt af því (losunarsvið 1 (e. scope 1)). Í öðru lagi er um að ræða losun vegna kaupa fyrirtækisins á rafmagni, gufu, hita eða kælingu (losunarsvið 2 (e. scope 2)). Í þriðja lagi er svo um að ræða losun í virðiskeðju fyrirtækisins, bæði aðfangamegin („up-stream“) og frálagsmegin („down-stream“) (losunarsvið 3 (e. scope 3)). Eftirfarandi mynd gefur yfirlit yfir losunarsviðin þrjú.
Yfirlit yfir losunarsvið og losun gróðurhúsalofttegunda í virðiskeðju fyrirtækja.
Hver er uppspretta losunar í matvælaframleiðslu?
Uppsprettur losunar í matvælaframleiðslu eru annars vegar líffræðilegar (t.d. búfjárhald, notkun áburðar og landnotkun, þ.m.t. framræsla og plæging jarðvegs) og hins vegar vélrænar (t.d. vélar, tæki og kælibúnaður). Óvissa við mat á losun frá líffræðilegu uppsprettunum er margfalt meiri en óvissan við mat á losun frá þeim vélrænu. Þannig er t.a.m. vel þekkt hversu mikið af koldíoxíði losnar við brennslu á hverjum lítra af dísilolíu og óvissan og breytileikinn lítill. Losun vegna landnotkunar er hins vegar mjög breytileg eftir landgerð og því hvernig landið er notað.
Sjá nánar um hugtök og orðskýringar um loftslagsmál á vefsíðunni Himinn og haf.
Þetta lesefni er hluti í greinaröð um loftslagsmál og matvælaframleiðslu sem Loftslagssjóður studdi árið 2022-2023.