Deila þessari síðu
Þegar ég byrjaði að versla inn mat sjálf, nýflutt að heiman, var ég upptekin af því að kaupa gæðamat. Ég er bæði matargat og svo hefur mér, einhverra hluta vegna, alltaf verið annt um heilsuna mína. Ég hafði breytt töluvert mataræðinu mínu og var byrjuð til dæmis að kaupa spelt í staðinn fyrir hveiti, mér fannst speltið fara betur í mig. Kannski er það af því að glútenið í því er vatnsleysanlegt og auðmeltara. Svo keypti ég lífrænan hrásykur í staðinn fyrir hvítan unninn sykur. Og þannig mætti lengi áfram telja.
Það sem ég var að versla inn, var að jafnaði dýrara en margt annað. Ég fór líka fljótlega að kaupa umhverfisvæn þvottaefni, krem og annað í þeim dúr. Þá, tók ég fljótt upp á því að leggja mig í líma við að nýta alltaf allan mat vel, henda engu. Og nota öll þvottaefni, krem og annað í góðu hófi. Heitt vatn tekur jú um 90% af öllum óhreinindum hvort sem er. Líklega hjálpaði mér að hafa búið í Þýskalandi, en þar lærði ég að flokka allan úrgang af mikilli kostgæfni og nákvæmni.
Það borgar sig svo sannarlega að fara vel með og beita ráðdeild í innkaupum á mat og hreinlætisvörum. Við hendum mat fyrir 17 milljarða á ári sem eru um 145 þúsund krónur á heimili.
Hvernig vinnum við gegn matarsóun?
Hér koma 10 ráð sem hafa gagnast mér vel til að koma í veg fyrir sóun og spara þannig peninga og um leið jörðina, sem börnin okkar erfa.
1. Ávextir þroskast á stofuborði. Þegar þeir eru orðnir þroskaðir (sætir og safaríkir) þá er ráð að setja þá í ísskápinn og geyma þar en fara vel með þá, gæta þess að þeir merjist ekki. Eru viðkvæmir þegar þroskaðir. Þar ættu þeir að geymast í a.m.k. viku. Ef þeir liggja undir skemmdum þar er best að þvo þá, afhýða ef þarf og skera í stóra bita og frysta. Þá má nota þá í þeytinga eða barnamat síðar. Ég nota zip lock poka og skola þá með heitu vatni á milli og þerra með hreinu stykki. Ég nota pokana aftur og aftur og aftur.
2. Ef grænmeti liggur undir skemmdum á það sama við. Skola, afhýða ef þarf og skera í bita og frysta til að nota síðar í súpur, pottrétti og sósur.
3. Nota sultukrukkur með loki fyrir afganga, þá sér maður um leið hvaða afgangar eru til er maður opnar ísskápinn. Erfiðara er notuð eru plastbox sem ekki sést í gegnum. Þá aukast líkurnar á því að maður gleymi að borða/nota afgangana.
4. Notast við lista í búðinni, ég sendi sjálfri mér skilaboð með því sem klárast.
5. Geyma helminginn af avókadó, epli, sítrónu, mangó á hvolfi ofan í skál/glasi inni í ísskáp. Nota næsta dag eða þar næsta o.s.frv. Ef þið geymið steininn í avókadóinum og mangó-inum þá geymast þeir ávextir betur/lengur.
6. Súrdeigsbrauð (sem eru dýr) og vefjur geymi ég í frysti í „zip lock“ pokum. Sama á við um kryddjurtir. Ef ég nota ekki allt búntið þá set ég afganginn í poka og í frysti til að nota seinna.
7. Elda mat, svo hann skemmist ekki. Hann geymist eldaður inni í ísskáp í 4-6 daga en líka hægt að frysta hann eftir eldun.
8. Hverju er oftast hent? Kaupa minna af því eða finna leiðir til að minnka sóunina.
9. Taka sig til þegar þarf (sá sem nennir) og útbúa mat úr afgöngum.
10. Mjög gott er að steikja aftur grænmeti, kjöt, grjón, quinoa o.s.frv. með góðu kryddi upp úr góðri ólífuolíu. Setja inn í vefjur með osti til dæmis. Salsa er alltaf góð með afgöngum, sem og sýrður rjómi og rifinn ostur. Auðvelt að drýgja afganga með eggjum, hrísgrjónum, kartöflum, brauði, osti og þess háttar.