Deila þessari síðu
Það verður að teljast líklegt að þegar orkuskipti til sjós muni eiga sér stað, verði það fyrst um sinn í minni bátum og skipum. Ekki er líklegt, miðað við núverandi aðstæður, að hægt sé að knýja stærri skip með metanóli eins og margir binda vonir við þó véltæknin sé til staðar. Þetta segir Hildur Hauksdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, í grein á vef samtakanna.
„Sú umræða hefur færst í aukana, hvort unnt sé að knýja íslenska fiskiskipaflotann með metanóli, sem framleiða má á Íslandi. Miðað við núverandi aðstæður, þá er það ekki hægt. Umræðan er hins vegar bæði mikilvæg og spennandi. Metanól er vissulega einn þeirra orkugjafa sem miklar vonir eru bundnar við, en hann er ekki sá eini. Það er sannarlega óskandi að framtíðar orkugjafi fyrir skip verði framleiddur með umhverfisvænu íslensku rafmagni. Það er draumastaða, sem ekki er útilokuð. Að mörgu þarf hins vegar að huga við svo viðamikil orkuskipti,“ segir Hildur.
Ein skýringin á því hvers vegna metanól hentar ekki er sú að orkuinnihald þess er um helmingi minna en í sömu einingu af jarðefnaeldsneyti. Það þýðir að tvöfalt meira þarf af metanóli en olíu til þess að verða sér úti um sömu orku. Skipin þyrftu því að vera stærri en þau eru í dag því meira pláss þarf fyrir eldsneytið. Í því felst óhagkvæmni að mati sérfræðings SFS.
Tæknin er stutt á veg komin
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samorka, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Faxaflóahafnir fengu norska ráðgjafafyrirtækið DNV til þess að meta orkuþörf flotans og möguleika á orkuskiptum til sjós.
„Í stuttu máli má segja að tækni til þess að skipta út jarðefnaeldsneyti á fiskiskipum er ekki ennþá nógu „þroskuð“. Samkvæmt nýlegri frétt frá einum umsvifamesta framleiðanda skipavéla í heiminum, Wartsilla, hefur fyrirtækið fengið sína fyrstu pöntun á vél sem bæði getur brennt hefðbundinni skipaolíu og metanóli. Gangi áætlanir eftir er ráðgert að afhenda hana á næsta ári og fyrirtækið telur að tæknin geti orðið söluvara á næstu árum. Það bendir því klárlega margt til þess að metanól verði einn af valkostunum í skipum framtíðarinnar. Þó ber að hafa í huga að samkvæmt áðurnefndri skýrslu DNV er kostnaður við nýtt skip, knúið metanóli, allt að 50-100% hærri en vegna hefðbundins skips og að auki er framleiðsla á metanóli miklu dýrari en framleiðsla á jarðefnaeldsneyti,“ segir í grein Hildar.
Innviðir eru ekki til staðar
Bent er á það í greininni að þegar nýir orkuvalkostir verða til þurfi að hyggja að innviðunum. „Það þarf að vera til næg raforka til þess að framleiða eldsneytið. Þá þarf að huga að geymslu á eldsneytinu, flutningum og öryggismálum vegna meðferðar þess. Og ekki bara á einum stað, heldur víða um land þar sem skip hafa viðkomu, bæði íslensk og erlend. Því má búast við að í fyrstu verði kerfið tvöfalt; það verður ekki skipt um eldsneyti í öllum skipum í einu, frá einum degi til annars. Það mun taka allnokkur ár.“
Óásættanlegt að brenna jarðefnaeldsneyti til að knýja fiskimjölsverksmiðjur
Hildur getur þess einnig í grein sinni að nú um stundir er ekki til næg raforka til þess að knýja fiskimjölsverksmiðjur á Íslandi. „Fyrir því eru að sjálfsögðu nokkrar ástæður, en engu að síður er það óásættanlegt að brenna þúsundum tonna af olíu til þess að knýja verksmiðjurnar. Stjórnvöld þurfa að tryggja að hægt sé að skipta út jarðefnaeldsneyti þar sem nú þegar er búið að fara í orkuskipti. Flestar fiskimjölsverksmiðjur geta notað raforku í stað olíu, en eins og staðan er núna, er sú raforka einfaldlega ekki í boði,“ segir Hildur sem telur það eftirsóknarvert að framleiða sjávarafurðir með takmörkuðum áhrifum á umhverfið. Það má hins vegar ekki hafa neikvæð fjárhagsleg áhrif á sjávarútveginn í heild sinni og skaða samkeppnishæfni hans.
„Ef það yrði hins vegar kostnaðarsamt úr hófi fram vegna sértækra aðgerða hér á landi, myndi það skaða samkeppnishæfni þessarar mikilvægu útflutningsatvinnugreinar. Uppskeran yrði af þeim sökum ekki eins og væntingar stóðu til. Þess þarf að gæta að svo verði ekki og vegferðina fram undan þarf því að vanda vel,“ segir Hildur Hauksdóttir hjá SFS.