Deila þessari síðu
„Íslenskt staðfest“, upprunamerki íslenskra matvara, plantna og blóma, var kynnt um miðbik mars. Tilgangur þess er að auka sýnileika og markaðshlutdeild íslenskra afurða og gefa neytendum greinilegar upplýsingar um að viðkomandi vara sé framleidd á Íslandi. Merkinu er ætlað að einfalda val neytenda við að velja íslenskar vörur.
Bændasamtök Íslands eiga og reka merkið en vottunarstofan Sýni mun sjá um að notkun þess sé samkvæmt reglum. Bjarki Lúðvíksson hjá auglýsingastofunni Hvíta húsið á heiðurinn af hönnun merkisins.
Framleiðendur greiða fyrir afnot af merkinu
Fyrirtæki sem starfa í matvælageiranum kaupa aðgang að merkinu og greiða árgjald, eftirlitsgjald og veltutengt gjald. Umsóknargjald, sem fyrirtæki greiðir í upphafi, er 100 þúsund krónur en síðan byggir notkun merkisins á föstu árgjaldi og veltutengdu árgjaldi. Árgjaldið er á bilinu 100 þúsund til 2,5 milljónir króna og fer það eftir heildarársveltu framleiðandans. Þannig greiðir fyrirtæki sem er með árlega veltu á bilinu 25-500 milljónir króna 150 þúsund krónur í árgjald. Fyrirtæki með yfir 5 milljarða í ársveltu greiða 2,5 milljónir. Þeir sem velta undir 25 milljónum á ári greiða 100 þúsund krónur í árgjald.
Veltutengt árgjald er greitt af merktum vörum eða 0,1% af nettósölu notenda með ársveltu yfir 25 milljónir króna. Veltutengt árgjald er aðeins tengt við vörur sem nýta merkið. Lágmarksárgjald með veltutengingu er 25 þúsund krónur. Fyrirtæki sem veltir sem dæmi 50 milljónum króna, vegna einnar vörur á ári, greiðir þannig 50 þúsund krónur í veltutengt árgjald.
Notendur greiða fast árgjald vegna eftirlits með notkun merkisins að upphæð 120 þúsund krónur. Innifalið í gjaldinu er úttekt á starfsstöðvum, skýrslugerð og ferðakostnaður úttektaraðila.
Það má því gera ráð fyrir því að fyrirtæki, sem framleiðir vöru og selur fyrir 50 milljónir króna á ári, greiði samtals á fyrsta ári 420 þúsund krónur fyrir notkun upprunamerkisins „Íslenskt staðfest“.
Bændur fá 50% afslátt
Bændur sem eru meðlimir í Bændasamtökum Íslands og eru með ársveltu undir 25 milljónum króna fá 50% afslátt af leyfisgjöldum og kostnaði.
Hvaða vörur má merkja?
Allar tegundir matvælahráefna, matvöru og plantna sem uppfylla skilyrði um íslenskan uppruna má merkja. Kjöt, egg, sjávarafurðir og mjólk skulu í öllum tilfellum vera 100% íslensk, líka í samsettum vörum. Allt að 25% innihalds í öðrum samsettum matvörum má vera innflutt. Skilyrði er að vörur sem hljóta merkinguna séu unnar og pakkað á Íslandi. Auk matavara þá má nota merkið á plöntur sem ræktaðar eru á Íslandi út frá fræjum, lauk og útsæði. Upplýsingar um hvaða innihaldsefni eru íslensk skulu koma fram á umbúðum vöru.
Drykkir skulu unnir úr íslensku hráefni og allt vatn skal vera íslenskt. Innflutt hráefni, t.d. bragðefni, má að hámarki vera 10%.
Til þess að mega nota merkið skulu öll dýr, sem er í framleiðsluvörum, fædd, alin og slátrað á Íslandi. Ræktun jurta skal einnig hafa farið fram á Íslandi.
Sektarákvæði ef ekki er farið að reglum
Þeir leyfishafar merkisins sem fara ekki eftir reglum geta misst leyfið tímabundið eða hlotið sekt sem samsvarar allt að tvöföldu leyfisgjaldi notanda eða að lágmarki 700 þúsund krónur. Leggst sektin við önnur gjöld sem heimilt er að innheimta samkvæmt samningi aðila.
Tilgangurinn að auka verðmæti innlendrar framleiðslu
Í upplýsingum á vefsíðunni staðfest.is segir að merkinu sé fyrst og fremst ætlað að auka sýnileika, verðmæti og markaðshlutdeild íslenskra afurða. Merkið á að stuðla að því að íslenskar vörur rati á borð neytenda og að fræða þá um kosti íslenskra matvæla og verslunar.
Nánari útskýringar á reglum merkisins og innleiðingu þess má nálgast á vefsíðunni stadfest.is.