Deila þessari síðu
Einhvern tímann var því kastað fram að blaðamenn lifðu mest á kaffi og sígarettum. Það átti ágætlega við mig framan af ferlinum en nú er langt um liðið síðan ég drap í síðustu rettunni. Hins vegar er kaffið enn á sínum stað og mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Ég komst til að mynda ekki almennilega í gang með þennan pistil fyrr en eftir þriðja bolla dagsins.
Eins og mér finnst kaffið gott og nauðsynlegt er það sennilega sá hluti daglegrar neyslu sem hvað mest er skammast út í. Það er sagt halda okkur vakandi langt fram eftir nóttu og því hefur verið kennt um að valda taugaskemmdum, krabbameini og hjartasjúkdómum, svo fátt eitt sé nefnt.
Samt er þetta sennilega vinsælasti drykkur veraldar, mér er sagt að Bandaríkjamenn drekki yfir 400 milljón kaffibolla dag hvern, ríflega einn bolla á hvert mannsbarn frá vöggu til grafar.
Eins og hver annar fíkill sem reynir allt til þess að réttlæta neyslu sína hef ég lagt mig eftir fróðleik sem styrkir mig í minni kaffidrykkju. Fyrir skömmu kom ég höndum yfir bók sem styður þennan sakbitna málstað minn betur en nokkuð annað sem ég hef lesið. Hún er eftir breskan lækni, Tim Spector, og ber titilinn Spoon-fed. Why Almost Everything We´ve Been Told About Food Is Wrong. Meðal þess sem höfundur tekur sér fyrir hendur að leiðrétta er að reisa við mannorð kaffisins. Samkvæmt bókinni er kaffi ekki bara nauðsynlegt örvunarlyf til þess að koma okkur af stað á morgnana heldur ver það okkur fyrir – já, haldið ykkur fast: krabbameini, hjartasjúkdómum og minnisglöpum! Hvorki meira né minna!
Nú sé ég höfuðin á lesendum hristast í vantrú.
Vissulega er það svo að þetta á við hóflega kaffidrykkju, ekki þann sið margra að eyða deginum með tugum kaffibolla. Höfundur segir að þrír til fjórir bollar á dag séu ráðlagður dagskammtur og á þá væntanlega við hefðbundna bolla, ekki risastóra fanta. Hann minnist ekkert á styrkinn, ég lít því svo á að mitt lútsterka espressó sé jafngilt lapþunnu vinnustaðaglundri þar sem sér til botns á þrítugu.
Að sjálfsögðu eru á þessum fullyrðingum læknisins ýmsir fyrirvarar eins og sönnum vísindamanni sæmir. Hann viðurkennir til dæmis að koffínið fari misvel í fólk, sumir þoli það vel og geti farið með síðasta bolla dagsins í rúmið meðan aðrir eru viðkvæmari. Ég hef lengi talið mig tilheyra fyrrtalda hópnum og hef því haldið áfram kaffidrykkju fram eftir kvöldi. Hann segir hins vegar að mjög algengt sé að koffínið haldi mönnum vakandi, enda hafi rannsóknir leitt í ljós að áhrif þess á taugakerfið séu mest fyrst en hverfi eftir fjóra til sjö klukkutíma. Þeir sem eru kvöldsvæfir og þola koffínið illa ættu því að hætta drykkjunni síðdegis.
Þessi mismunur á koffínþolinu er raunar meginboðskapur læknisins með bókinni. Hann heldur því semsé fram að læknavísindin hafi fyrir skemmstu uppgötvað heilt líffæri, og það ekki lítið, sem hafi alveg farið framhjá fólki þar til núna. Það sem hann á við með því er fyrirbæri sem oft er ranglega nefnt örveruflóra, trilljónir baktería og annarra kvikinda sem halda til í maganum og smáþörmunum og stuðla að því að maturinn og drykkurinn sem við innbyrðum meltist og fari sína réttu leið í gegnum okkur.
Enska heitið á þessum skara er microbes, en það á ekkert skylt við blóm svo ekki er rétt að kalla það flóru. Örverur þessar valda því hins vegar að allflestar lífsreglur okkar um næringu og hollustu þarfnast endurskoðunar. Í raun er eiginlega ekki hægt að gefa út lengur algildar reglur um hvað okkur beri að éta og drekka til þess að halda heilsu. Það sem einum er gott og rétt getur stefnt öðrum beinlínis í lífshættu. Örverurnar eru svo margar og misjafnar að engir tveir eru eins samsettir, ekki einu sinni eineggja tvíburar. Þarna eru vísindin enn á byrjunarreit og allt sem okkur hefur verið sagt um mat orkar því tvímælis eins og segir í titli bókarinnar.
Um þetta og fleira fróðlegt úr bók Tim Spectors á ég eftir fjalla í síðari pistlum. Nú er ég á leið í stutt frí til Ítalíu en þar stunda íbúar mataræði sem kennt er við Miðjarðarhafið og þykir að mörgu leyti til fyrirmyndar. Meira um það næst.
Titill bókarinnar:
Tim Spector: Spoon-fed. Why Almost Everything We´ve Been Told About Food Is Wrong. Vintage 2020.