Lýsing
Hólsfjallahangikjötið og Fjallalamb á Kópaskeri
Fjallalamb hefur um árabil boðið upp á hangikjöt sem hefur skapað fyrirtækinu þó nokkra sérstöðu og fastan viðskiptavinahóp.
Kjötið er pækilsaltað (ekki sprautusaltað) í upphafi og áhersla er lögð á að salta það mjög lítið.
Reykingaraðferðin hjá Fjallalambi er byggð á gömlum hefðum, þó kjötið sé kaldreykt í nútíma reykofnum. Kjötið fær góðan tíma í reyknum og það er látið hanga á milli þess sem kveikt er undir og það látið þorna. Eftir reykinguna er kjötið látið hanga í nokkra daga til viðbótar áður en því er pakkað.
Fjallalamb hefur markaðssett hangikjötið undir nafninu „Hólsfjallahangikjöt“ um árabil. Nafnið tengist landshorninu og var fé sem gengið hafði á Hólsfjöllunum rómað fyrir vænleika og gæði. Féð sem Fjallalamb vinnur gengur þó ekki allt á Hólsfjöllunum nú til dags. Það kemur frá um 50 sauðfjárbændum sem búa víðs vegar í Þingeyjarsýslu.
Hangikjöt soðið í vatni
Ágætt er að miða við 200-250 g á mann af hangikjöti.
- Setjið hangikjöt í pott með köldu vatni þannig að fljóti yfir kjötið. Mögulega þarf að saga lærið í tvennt til að koma ofan í pottinn. Hleypið suðunni upp (alls ekki láta bullsjóða) og látið hangikjötið vera við suðumark í 40 mín. per kg, athugið að skoða þyngdina á bitanum fyrst.
- Takið pottinn af hitanum og látið kjötið kólna í soðinu. Þetta má gjarna gera degi áður en hangikjötið er borðað og best að leyfa að vera í pottinum yfir nótt. Húsráð frá sláturhússtjóranum á Kópaskeri er að setja einn pilsner eða jafnvel bjór út í soðið þegar búið er að slökkva undir. Ölið gefur einhverja óútskýrða mýkt í kjötið að hans mati!
- Skerið í fallegar sneiðar og berið fram með uppstúf með kartöflum, rauðkáli, grænum baunum og laufabrauði.
Hangikjöt eldað í ofni
Sumir kjósa að elda hangikjöt í ofni. Vefjið þá hangikjötslærið í álpappír (gjarnan í tvöfalt lag) og setjið á grind með ofnskúffu undir. Setjið inn í 130°C heitan ofn. Notið kjöthitamæli og eldið kjötið þangað til kjarnhitinn nær 65°C. Athugið að þessi aðferð getur tekið góðan tíma, um 3-4 klst. En hangikjötið verður meyrt og bragðgott ef allt heppnast vel.
Næringarinnihald
M.v. 100 grömm af hangilæri
Orka: 801 kJ, 192 kcal.
Prótein: 21,0 g
Fita: 12 g, þ.a. mettaðar fitusýrur 5,3 g
Kólestról: 72 mg
Kolvetni: 0
Salt: 4,5 g
Aðrar upplýsingar
Kjötið er unnið og pakkað hjá Fjallalambi á Kópaskeri.
Innihald: Hólsfjallahangikjöt, heilt hangið lambalæri, taðreykt með beini.
Upprunaland: Ísland
Slátrað og unnið á Íslandi.
Alið í N-Þingeyjasýslu
Framleiðandi: Fjallalamb, Röndinni 3, 670 Kópaskeri
Sláturhús: Fjallalamb á Kópaskeri
Söluaðili: Matfélagið ehf. – Matland.is