Deila þessari síðu
Matland býður upp á einstakar T-beinssteikur (e. T-bone) úr holdanautum af Ströndum. Steikurnar eru sérstakar fyrir það leyti að hver um sig er á bilinu 1,1-1,4 kg að þyngd og nægir fyllilega í máltíð fyrir þrjá til fjóra einstaklinga. Steikur sem þessar sjást sjaldan á borðum hér á landi en þær er hægt að panta neðst á síðunni.
Bærinn, þar sem gripirnir eru aldir, heitir Stóra-Fjarðarhorn og er í botni Kollafjarðar. Beitilandið er vel gróið og nær frá fjöru, inn dali og upp á fjallstoppa. Grösugir dalir er hluti af landinu og falleg á rennur um landið.
Á Stóra-Fjarðarhorni ráða ríkjum bændurnir Guðfinna Lára Hávarðardóttir og Ágúst Helgi Sigurðsson. Þau búa með nautgripi, sauðfé og rækta töluvert af grænmeti. Þau fluttu í sveitina árið 2016 með fjölskylduna sína. Guðfinna er frá Kjörvogi í Árneshreppi og lærði búvísindi í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Ágúst lærði húsasmíði og búfræði frá Hvanneyri en hann er frá Birtingaholti í Hrunamannahreppi þar sem hjónin bjuggu áður en þau fluttu á Strandir.
Stórir nautgripir með mikla holdsöfnun
Nautgripirnir á Stóra-Fjarðarhorni eru af angus- og limousine holdakyni en þau kyn ala af sér töluvert stærri gripi en íslenska kúakynið. Kjötgæðin eru eins og best verður á kosið. Mikil fitusprenging og holdsöfnun. Kýr og kálfar verja mestum tíma úti við en holdagripir eru með þykkan vetrarfeld og þola vel kulda. Alltaf er samt hýst í vondum veðrum.
Bændurnir á Stóra-Fjarðarhorni leggja mikla áherslu á fóðrun sinna gripa sem er lykillinn að því að framleiða gæðakjöt. Nautin fá fyrsta flokks hey og aðgang að kjarnfóðri. Þau fá líka töluvert af umfram-grænmeti sem framleitt er á búinu.
Sjálfbærni og engin sóun
Ágúst og Guðfinna á Stóra-Fjarðarhorni taka þátt í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur umsjón með ásamt fleirum. Í því felst að búið gerir loftslagsáætlun og miðar búskapinn að því að vera sem mest sjálfbær eins og hugsast getur og sóa sem minnstu.
Kjötið frá Stóra-Fjarðarhorni er unnið á Hellu hjá viðurkenndum kjötiðnaðarmönnum hjá fyrirtækinu Villt og alið.
Hvernig er best að elda stóra T-beinssteik?
Það eru ýmsar aðferðir til að elda stóra T-beinssteik. Hægt er að steikja á pönnu, elda í ofni eða grilla. Mikilvægt er að taka steikina út úr kæli a.m.k. hálftíma áður en eldamennskan hefst og hafa hana við stofuhita.
Ef pönnusteikt þá er gott að hita pönnuna upp á meðalhita. Berið lítilsháttar olíu á steikina og saltið og piprið eftir smekk. Hækkið þá hitann á pönnunni og skellið steikinni á ásamt vænni smjörklípu. Snúið steikinni þegar hún er orðin vel brúnuð, um 7 mín. á annarri hliðinni og 4 mín. á hinni hliðinni fyrir medium-rare.
Mælt er með því að nota kjöthitamæli og hætta þegar hann sýnir 52°C fyrir medium-rare.
Fyrir mjög þykkar steikur er ráðlegt að klára eldunina í ofni. Hvílið steikina í a.m.k. 6-8 mínútur eftir eldun og skerið síðan af beininu og í sneiðar.
Við grillun er fylgt sömu ráðum en mikilvægt að nota kjöthitamæli til að fylgjast með hitastiginu.
Munið að steikin heldur áfram að eldast í hvíldinni.