Deila þessari síðu
Á bænum Efri-Úlfsstöðum í Landeyjum hafa Hörður Bender og fjölskylda hans síðustu ár unnið að ræktun á íslenskum hvítlauk og gulrótum með ágætum árangri. Þau eru sannkallaðir frumkvöðlar en enginn á Íslandi hefur ræktað hvítlauk með það fyrir augum að búa til vöru á markað. Matland býður upp á hvítlauk og gulrætur frá Efri-Úlfsstöðum í Landeyjum í grænmetiskassa #11 sem afhentur verður viðskiptavinum 13. október.
„Hvítlaukurinn okkar er um það bil ellefu mánuði í jörðu; frá október til september næsta árs. Það gerir hann líklega hægvaxnasta hvítlauk í heimi,“ segir Hörður. Þegar búið er að taka laukinn upp er farið með hann í þurrkun í skemmu á bænum. Þar er hann bundinn í knippi og hengdur til þerris. Að sögn Harðar er hvítlaukur mislengi að þorna en ákjósanlegt er að hann hangi 2-3 vikur til að þorna vel.
„Það þýðir ekki að þú getir ekki borðað hann strax ferskan, en eins og allur laukur þá er hann frekar blautur þegar við tökum hann upp og bragðminni. Með því að þurrka hann kemur meira bragð og hann verður auðveldari í allri meðhöndlun.“
Hörður segir að takmark þeirra sé að bjóða upp á besta mögulega hvítlaukinn og aðrar hvítlauksvörur sem þau geti verið stolt af.
„Við gerum okkur fyllilega grein fyrir að við munum aldrei verða stærsti framleiðandinn, en við vinnum hörðum höndum að því að rækta besta hvítlaukinn.“
Gulrótaveisla með hvítlauksívafi
Grænmetiskassi #11 verður afgreiddur til viðskiptavina Matlands fimmtudaginn 13. október. Í honum verður eitt knippi af hvítlauk frá Efri-Úlfsstöðum en í hverju knippi eru 5 laukar, um 300 g. Það verður sannkölluð gulrótaveisla í kassanum því þar verður líka að finna 1 kg af gulrótum frá bændunum á Efri-Úlfsstöðum.
Annað grænmeti í kassanum kemur frá bændum innan vébanda Sölufélags garðyrkjumanna. Þar er að finna 1 kg af kartöflusmælki, pak-choi salat, grænkál, ½ kg af tómötum, gúrku og eina gómsæta gulrófu.
Má bjóða þér áskrift?
Hægt er að fá grænmetiskassa Matlands í áskrift, vikulega, á tveggja vikna fresti eða mánaðarlega. Hver kassi í áskrift kostar 4.700 kr. en 4.950 kr. ef keyptir eru stakir kassar. Innihald kassans er breytilegt eftir því hvað er ferskast hverju sinni.
-
Grænmeti í áskriftFrá: 4.995 kr. / á mánuði