Deila þessari síðu
Hagstofa Íslands hefur tekið saman upplýsingar og birt á vef sínum um rekstur og efnahag bænda í fimm búgreinum á árunum 2008-2020. Um er að ræða upplýsingar úr rekstri sauðfjárbúa, kúabúa, annarra nautgripabúa, garðræktar og plöntuframleiðslu og loðdýraræktar.
Af gögnunum að dæma er ljóst að búum heldur áfram að fækka og einingarnar stækka. Áframhaldandi tap er á rekstri sauðfjárbúa en kúabændur í mjólkurframleiðslu bæta örlítið við sinn hagnað og eiginfjárstaða þeirra fer batnandi.
„Árið 2020 einkenndist af áframhaldandi fækkun búa. Búum hefur farið fækkandi undanfarin ár en þó í meiri mæli árið 2020 en árin á undan. Það má helst rekja til færri sauðfjár- og kúabúa en heilt yfir fækkaði búum í öllum greinum nema í garðrækt og plöntuframleiðslu. Í árslok 2008 voru alls 2.795 bú í landbúnaðargreinunum fimm en tólf árum síðar hafði þeim fækkað um 375 og voru þau alls 2.421 í árslok 2020,“ segir í greiningu Hagstofunnar.
Tekjur í landbúnaði um 47,7 milljarðar á ári
Rekstrartekjur bænda hafa nánast staðið í stað síðan 2016 og mældust samanlagðar tekjur greinanna árið 2020 þær sömu og árið 2015 (á föstu verðlagi).
Tekjurnar hækkuðu einungis um tæpt 1% á milli ára 2020 og 2019 og reyndust um 47,7 milljarðar króna. Aukning var í veltu hjá öllum greinum að undanskildum sauðfjárbúum og loðdýrarækt. Árið 2016 fóru tekjur hæst í tæplega 49 milljarða króna en lægstar voru þær um 41 milljarður króna árið 2009.
Samdráttur nema í mjólkurframleiðslu og garðyrkju
Alls skiluðu greinarnar 674 milljónum króna í hagnað árið 2020 sem var nokkur aukning frá 248 milljóna króna hagnaði fyrra árs.
Samdráttur var í afkomu hjá öllum nema kúabúum og garðrækt og plöntufjölgun en þær greinar voru jafnframt þær einu sem skiluðu hagnaði árið 2020.
Þrátt fyrir bætta afkomu landbúnaðarins var hún hins vegar fjarri því sem þekktist árin fyrir 2018 en að meðaltali var hagnaður áranna 2010 til 2017 um 4,8 milljarðar króna.
Efnahagur greinanna allra hefur batnað þegar á heildina er litið. „Langtímaskuldir lækkuðu á milli ára um tæpa tvo milljarða króna (3% lækkun) og eiginfjárstaðan vænkaðist um 1,1 milljarð króna (14% aukning). Í árslok 2020 var eigið fé jákvætt í öllum greinum nema loðdýrarækt og algjör viðsnúningur var orðinn á eiginfjárstöðu kúabúa. Mest var eigið fé hjá sauðfjárbúum og í garðrækt og plöntufjölgun. Eiginfjárhlutfall þeirra var 24% og 33%,“ segja skýrsluhöfundar.
Sauðfjárbúum fækkaði um rúmlega eitt á viku árið 2020
Sauðfjárbúum fækkaði um 61 árið 2020 og voru alls 1.429 bú starfandi í árslok. „Fækkun var í flestum stærðarflokkum og landshlutum – mest á Norðurlandi vestra úr 335 árið 2019 í 314 árið 2020. Þá hefur fækkunin einnig verið mjög jöfn á milli stærðarflokka og meðalstærð sauðfjárbúa því haldist tiltölulega óbreytt frá 2008 til 2020 þar sem yfir 40% búa eru smá með fjölda sauðfjár undir 100.“
Rekstrartekjur sauðfjárbúa drógust saman frá fyrra ári um rúmlega 200 milljónir króna og voru rúmlega 12,3 milljarðar króna árið 2020. Tap var á rekstri sauðfjárbúa upp á 92 milljónir króna árið 2020, langtímaskuldir lækkuðu um rúmar 300 milljónir króna í 11,7 milljarða króna og eigið fé, sem var jákvætt um 4,6 milljarða króna, lækkaði um rúmlega 250 milljónir króna frá fyrra ári. Eiginfjárhlutfall var 24%.
Kúabúum fækkar um tvö í mánuði
Alls voru 660 starfandi kúabú árið 2020 og hafði þeim þá fækkað um 25 frá fyrra ári. Árið 2008 var 721 starfandi kúabú á Íslandi. Almennt voru litlar breytingar eftir landshlutum en mest var fækkun á Suðurlandi; úr 269 árið 2019 í 251 árið 2020.
Meðalstærð kúabúa hefur heldur vaxið síðan 2008 frá því að vera 37 kýr að meðaltali árið 2008 í 41 kú árið 2020. „Þannig voru stærri bú (með yfir 50 kýr) 34% allra kúabúa árið 2020 samanborið við 22% hlutdeild árið 2008. Þessi þróun hefur verið á kostnað smærri búa með 26-50 kýr en smæstu búin (1-25 kýr) voru hlutfallslega jafn mörg árið 2020 og þau voru í upphafi tímabilsins.“
26,5 milljarða tekjur kúabúa
Í skýrslu Hagstofunnar segir að samanlagðar tekjur kúabúa hafi aukist um rúmar 400 milljónir króna árið 2020. Þá voru þær tæplega 26,5 milljarðar króna.
Aukning var á hagnaði á milli ára úr 54 milljónum króna í 414 milljónir króna sem samt sem áður var langt frá 3 milljarða króna meðalhagnaði áranna 2010-2018.
Eiginfjárstaðan batnaði hins vegar úr 359 milljónum króna árið 2019 í tæplega 1,4 milljarða króna árið 2020 enda batnaði skuldastaðan umfram eignaskerðingu (langtímaskuldir voru 38,7 ma. kr. árið 2020 eða 1,7 milljörðum króna lægri en árið 2019). Eiginfjárhlutfall var 3%.
Nautakjötsframleiðendum fer fækkandi
Öðrum nautgripabúum fækkaði um sex árið 2020 (úr 94 í 88). Árið 2008 voru þau 97, fjölgaði í 111 árið 2012 en fækkaði eins og áður segir í 88 árið 2020. „Tiltölulega jöfn þróun var í fjölda búa eftir landshlutum. Mest fækkaði búum á Vesturlandi og Vestfjörðum eða um þrjú. Sé miðað við stærð búa var fækkunin nær öll í minnstu búunum (með 1-25 nautgripi) eða úr 54 í 49. Vægi stærri búa (með yfir 50 nautgripi) jókst því árið 2020 í 26% en til samanburðar voru þau 20% allra búa árið 2008.“
Velta ársins 2020 nam 1,3 milljörðum króna og var nær óbreytt frá fyrra ári miðað við verðlag ársins 2020.
Tap var á rekstri nautgripabúa upp á 82 milljónir króna sem var jafnframt svipuð afkoma og síðustu tvö árin á undan en almennt hefur reksturinn verið nokkuð sveiflukenndur frá 2008.
Fjárhagsstaðan var að mestu óbreytt. Þó lækkaði eigið fé um 60 milljónir króna (í tæplega 450 milljónir króna) og langtímaskuldir jukust um sambærilega upphæð. Eiginfjárhlutfall var 17%.
Garðyrkja og plöntuframleiðsla eflist
Fjöldi búa í garðrækt jókst lítillega árið 2020 (úr 208 í 216) en almennt hefur verið lítil breyting síðan 2008.
Helst hefur búum fækkað í ræktun á kartöflum (úr 55 í 40) en fjölgað um 16 í ræktun annarra nytjajurta síðan 2008.
„Tekjur árið 2020 jukust í nær öllum flokkum og alls um tæplega 300 milljónir króna. Sé miðað við fast verðlag árið 2020 var aukning um 11 milljónir króna í ræktun á aldingrænmeti og papriku (tekjur ársins námu 1,4 milljörðum króna), 100 milljónir króna í ræktun á kartöflum (tekjur einn milljarður króna.) og blómarækt (tekjur 1,1 milljarður króna), 110 milljónir króna í ræktun annarra nytjajurta (tekjur 490 milljarðar króna) og ríflega 130 milljónir króna í plöntufjölgun (tekjur 535 milljarðar króna) en samdráttur um 176 milljónir króna í ræktun á öðru ótöldu grænmeti (tekjur 2,8 milljarðar króna),“ segir í skýrslu Hagstofunnar.
Jákvæð afkoma og aukinn hagnaður var í öllum flokkum að undanskilinni ræktun á aldingrænmeti og papriku. Þar var samdrátturinn um 83 milljónir króna á árinu.
Alls nam hagnaður garðræktar og plöntuframleiðslu um 540 milljónum króna sem var hækkun um 200 milljónir frá fyrra ári.
Eigið fé var jákvætt hjá öllum flokkum (minnst í blómarækt en þó í fyrsta sinn jákvætt á tímabilinu) og alls tæplega 500 milljónum krónum hærra en árið 2019 sem alfarið mátti rekja til hagnaðar ársins 2020 enda voru langtímaskuldir óbreyttar. Eiginfjárhlutfallið var 33%.
Loðdýraræktin stendur afar tæpt
Búum í loðdýrarækt fækkaði um fimm árið 2020 (úr 33 í 28). Nú eru innan við tíu bú í landinu en rekstrarumhverfi loðdýraræktarinnar hefur versnað mjög hratt síðustu ár. „Árið 2020 drógust tekjur saman um 168 milljónir króna miðað við fyrra ár, eða úr 458 milljónum króna í 290 milljónir króna á föstu verðlagi, en tekjur í loðdýrarækt hafa dregist saman samfellt síðan 2015.
Tap var á rekstrinum árið 2020 upp á 107 milljónir króna en loðdýrarækt var síðast arðbær árið 2013.
Í samræmi við samfelldan taprekstur var eigið fé neikvætt um 200 milljónir króna í árslok 2020, langtímaskuldir 589 milljónir króna og eignir 777 milljónir króna (sem fóru hæst í tæpa 2,6 milljarða króna árið 2014),“ segir á vef Hagstofunnar um þróun reksturs og efnahag landbúnaðarins á síðustu árum.
Heimild: Hagstofa Íslands