Deila þessari síðu
Staða matvælamarkaða í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu var rædd við ríkisstjórnarborð Íslands í dag. Í minnisblaði frá Svandísi Svavarsdóttur, sem fjallað var um á fundinum, kemur fram að ráðamenn telji ekki að matvæla- og vöruskortur sér fyrirséður á Íslandi en möguleiki sé á skorti á ákveðnum hráefnum til lengri tíma. Ráðherra bendir á að verð á hrávöru hafi hækkað hratt á heimsmarkaði og að innflytjendur séu að birgja sig upp af ákveðnum vörum. Bændasamtök Íslands hafa lýst yfir áhyggjum af framleiðsluvilja bænda og að hann kunni að dvína vegna þróunarinnar.
Alþjóðamarkaðir á fleygiferð
Matvælaráðherra vísaði í tölur frá Alþjóðabankanum og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) sem sýna miklar hækkanir á helstu vísitölum. Sem dæmi hafa olía, gas og kol hækkað um 102% á síðustu 12 mánuðum og um 44% sé litið til síðustu þriggja mánaða. Olíur og mjöl hafa hækkað um 34% eftir innrás Rússa í Úkraínu, eins stærsta matarforðabúrs Evrópu. Síðustu 12 mánuði hefur áburður hækkað um 128% sem er grundvallarframleiðsluþáttur í allri jarðrækt.
Missa bændur framleiðsluviljann?
Bændasamtökin hafa lengi sett fæðuöryggi í forgrunn í sínum málflutningi. Þau hafa meðal annars bent á mikilvægi þess að auka kornbirgðir í landinu og stuðla að aukinni innlendri kornrækt. Samtökin segja verð á kjarnfóðri hafa hækkað hratt eða um 20% í apríl.
„Vegna hækkandi kostnaðar, óvissu um aðföng og hvort afurðaverð fylgi eftir kostnaðarhækkunum eru uppi áhyggjur um framleiðsluvilja bænda. Framleiðsluferill í landbúnaði er almennt langur og hafa Bændasamtökin bent á ýmis merki um að bændur séu þegar farnir að huga að því að draga saman í framleiðslu sinni,“ segir í minnisblaði matvælaráðherra.
Í ljósi aðstæðna vegna stríðsins í Úkraínu ákvað ráðherra að framlengja tímabil til ráðstöfunar tollkvóta vegna innfluttra landbúnaðarvara frá ríkjum Evrópusambandsins. Haft er eftir hagsmunaaðilum að nú sé orðið snúið að útvega ýmsar vörur eftir að stríðið í Úkraínu skall á.
„Þrátt fyrir að ekki sé beinlínis skortur á vörum þá þurfi innflutningsfyrirtæki að hafa meira fyrir því að útvega vörur á hagkvæmu verði.“
Ráðherra veitir sveigjanleika við framfylgd löggjafar um merkingar matvæla
Vegna skorts á vissum hráefnum, t.d. sólblómaolíu og ýruefnum getur komið upp sú staða að breyta þurfi uppskriftum samsettra vara með litlum fyrirvara að mati matvælaframleiðenda. Í mörgum tilfellum eiga framleiðendur lager af forprentuðum matvælaumbúðum með innihaldslistum. Í ljósi þessa hefur matvælaráðherra ákveðið að koma til móts við framleiðendur með ákveðnum sveigjanleika við framfylgd löggjafar um merkingar matvæla sem kveður á um að innihaldslistar skuli tilgreina öll innihaldsefni vöru og ekki önnur.
„Tímabundið er því mögulegt fyrir matvælafyrirtæki sem verða fyrir skorti á hráefnum vegna stríðsins að nota áfram forprentaðar umbúðir að tilteknum skilyrðum uppfylltum,“ segir matvælaráðherra.
Kjötskortur mögulegur vegna verðhækkana?
Samkvæmt upplýsingum frá hagsmunasamtökum fyrirtækja m.a. í verslun og inn- og útflutningi er ekki fyrirséð að almennt verði um um matvæla- eða vöruskort að ræða. Mögulegt er þó að skortur komi upp á sólblómaolíu, kjúklingakjöti og sólblómalesítíni eftir því sem fram líður að mati þeirra.
„Samtökin telja að taka þurfi stöðuna síðsumars þegar ljóst verður hversu mikil uppskera verður á heimsvísu. Sífellt er erfiðara sé að útvega vörur á borð við kjúklinga- og nautakjöt nema þá á háu verði, m.a. vegna hækkandi fóðurs-, orku- og áburðarkostnaðar. Það sem samtökin telja óvanalegt við stöðuna á markaði er að innflytjendur eru ekki að setja fyrir sig verðhækkanir, en samþykkja uppsett verð á sama tíma og þeir reyna að birgja sig upp af sumum vörum. Þá segja samtökin miklar verðhækkanir framundan. Birgjar eru jafnframt farnir að bæta ýmsum gjöldum ofan á verð s.s. orkugjaldi, olíugjaldi, kassa- og brettagjaldi svo nefnd séu dæmi um skapandi verðlagningu sem samtökin hafa heyrt af. Þetta virðist viðleitni til að breyta ekki grunnverðinu, heldur setja á tímabundnar hækkanir á verði orku og annarra aðfanga,“ segir í minnisblaðinu.
Finnar hafa gripið til aðgerða heima við
Í minnisblaðinu til ríkisstjórnarinnar greindi Svandís matvælaráðherra frá aðgerðapakka finnsku ríkisstjórnarinnar sem er ætlaður til stuðnings matvælaframleiðslu þar í landi. Ráðstafað er 300 milljónum evra í verkefnið sem eru tæpir 28 milljarðar íslenskra króna.
„Tilgangur aðgerða er að bæta lausafjárstöðu bænda, auka orkuöryggi landsins og minnka notkun jarðefnaeldsneytis til lengri tíma. Þær tengjast sambærilegum tillögum sem ESB kynnti fyrir skemmstu og snúa að matvælaframleiðslu í heild en ekki eingöngu landbúnaði. Aðildarríkjum var heimilað að bæta allt að 200% ofan á aðstoðina frá ESB,“ segir í minnisblaði Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra.