Deila þessari síðu
Vísbendingar eru um að meira mælist af andoxunarefnum í kartöflum en í ýmsum litsterkum grænmetistegundum og að sum innlend kartöfluyrki séu með mun minna kolvetnainnihald en algengt er erlendis. Þá hefur pökkun á grænmeti mikil áhrif á gæði þess og líftíma.
Þetta kemur fram í niðurstöðum verkefnisins á vegum Matís sem heitir „Bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis.“ Því var ætlað að efla grænmetisgeirann á Íslandi með nýrri þekkingu og styðja við aukna framleiðslu á grænmeti af miklu gæðum.
Vinsældir kartaflna hafa dvínað
Í umfjöllun um lokaskýrslu verkefnisins á vef Matís segir að vinsældir kartaflna hafi minnkað nokkuð á síðustu árum, ekki síst hjá yngstu kynslóðinni.
„Hollustuímynd kartaflna hefur kannski ekki verið eins sterk og fyrir litsterka grænmetið. Vel er þekkt að tómatar, spergilkál, rauð paprika og fleiri grænmetistegundir innihalda vítamín og önnur hollefni eins og andoxunarefni. Hjá Matís hafa verið gerðar mælingar á andoxunarefnum og andoxunarvirkni í grænmeti þar á meðal kartöflum,“ segir í skýrslunni.
Það kom á óvart að meira mældist af andoxunarefnum í kartöflum en ýmsum litsterkum grænmetistegundum.
Meira er framleitt af kartöflum en öðru grænmeti á Íslandi. Uppskeran síðastliðin fimm ár hefur verið á bilinu 6 til 9 þúsund tonn. Að mati rannsóknarfólks á Matís væri hægt að auka kartöfluframleiðsluna á Íslandi umtalsvert sem væri gott framlag til aukins fæðuöryggis þar sem hægt er að geyma kartöflur í langan tíma.
Minna af kolvetnum en í ýmsum erlendum yrkjum
Við efnamælingar á kartöflum kom í ljós að kolvetnainnihald þeirra var oft lægra en fyrir erlendar kartöflur. Sum kartöfluyrkin höfðu til muna lægra kolvetnainnihald en algengt er erlendis. Lágt kolvetnainnihald þýðir jafnframt að hitaeiningarnar eru færri en í kolvetnaríkari kartöflum.
Flest kartöfluyrkin veita færri hitaeiningar en soðið pasta og kartöflurnar hafa andoxunarefnin og vítamín umfram pastað.
„Embætti landlæknis mælir með að fólk borði fimm skammta af grænmeti og ávöxtum á dag. Kartöflur eru undanskildar í þessum skömmtum en kannski væri ástæða til að breyta því,“ segja skýrsluhöfundar.
Skýrslan á netinu
Verkefnið Bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis var unnið á Matís í samvinnu við garðyrkjubændur og fleiri á árinu 2021 fyrir styrk frá Matvælasjóði.
Um niðurstöður þess má lesa í skýrslu frá Matís með því að smella hér.