Lýsing
Hér undir er uppskrift að rabarbarasultu frá Leiðbeiningamiðstöð heimilanna.
Rabarbarasulta
Hráefni
1 kg rabarbari
600 g strásykur
200 g púðursykur (dökkur)
Aðferð
Rabarbarinn er þveginn og þurrkaður. Brytjaður niður í frekar smáa bita og hýði sem er orðið brúnt fjarlægt.
Sett lagskipt á móti sykri í góðan pott. Suðan látin koma upp og soðið við vægan hita þangað til sultan fer að þykkna.
Ágætis viðmið er, að ef trésleif er stungið í miðjan pottinn og hún stendur kyrr, þá ætti sultan að vera fullsoðin.
Sultan sett í vel hreinsaðar krukkur, lokað strax og geymd á köldum stað.
Gott ráð ef rabarbarinn og sykurinn er sett í pott deginum áður en sultan er soðin þarf hún skemmri suðutíma.
Ef þú vilt gera rabarbaragraut þá er uppskrift hér.
Framleiðandinn
Kjartan H. Ágústsson hefur ræktað rabarbara á Löngumýri á Skeiðum í marga áratugi. Í ár er 54 árið sem hann stendur vaktina en Kjartan var 16 ára gamall þegar hann byrjaði að skera rabarbara og selja. Núna uppsker hann um 6-8 tonn af rabarbara á hverju sumri og selur mest af magninu í sultugerð.
Yrkið sem Kjartan ræktar kallast Queen Victoria, kemur upphaflega frá Bretlandi og er kennt við Victoriu, dóttur hertogans af Kent, sem síðar var krýnd drottning. Yrkið er stórvaxið með græna stöngla og gefur mikla uppskeru en þykir súrt.
„Fyrst þarf að taka hann upp og brjóta blöðkuna af og eftir að rabarbarinn kemur í hús er hællinn eða hófurinn skorinn af. Því næst er hann þveginn og stærstur hluti hans brytjaður í tveggja sentímetra bita auk þess sem ég sel lítinn hluta hans í heilum stilkum,“ sagði Kjartan í viðtali við Vilmund Hansen, blaðamann hjá Bændablaðinu, fyrir nokkrum árum.
Fyrirtæki í sultuframleiðslu kaupa stærstan hluta uppskerunnar en rabarbarinn er þó nýttur í ýmislegt annað; m.a. í líkjöragerð, karmellur og grauta. Í rabarbararæktinni hjá Kjartani er hvorki notað skordýra- né illgresiseitur.