Deila þessari síðu
Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi einfaldleikans og hef sagt í léttum tón að í grunninn megi flokka freyðandi vín í tvo flokka, freyðivín og kampavín. Raunin er hins vegar sú að auðvitað er þetta ekki svona einfalt, þó svo að þetta sé í sjálfu sér ekki alrangt.
Freyðivín er, eins og nafnið gefur til kynna og allir vita, vín sem hefur með einhverjum hætti verið troðið kolsýru í. Langflest freyðivín eru ljós eða bleik (rosé) en einnig eru dæmi um að þau séu dökk. Lambrusco er sennilega eitt þekktasta dæmið um rauð freyðivín. En hvernig urðu freyðivín til og hver er munurinn á kampavíni og freyðivíni?
Freyðivín verður til
Það er algengur og frekar leiður misskilningur að það sé Dom Perignon sem hafi fundið upp freyðivínið. Það var raunar hann sem eyddi miklum tíma upphaflega í að reyna að losna við loftbólurnar sem mynduðust í vínunum, sem var álitinn galli í vínum. Eitt verður þó ekki tekið af honum. Það var hann sem kom með tillögur að vinnulagi og betrumbótum á vínræktun og víngerð í héraðinu, sem hafði gríðarleg áhrif á gæði vínanna um ókomna tíð.
Til að finna uppruna freyðivína þurfum við að leita töluvert lengra aftur í sögubækurnar. Það eru heimildir frá tímum Forngrikkja og Rómverja sem vísa til freyðandi vína. Þó svo að uppruni kolsýrunnar hafi ekki verið nákvæmlega á hreinu, voru menn nokkuð vissir um að þetta tengdist stöðu tunglsins, og ef ekki, þá væru líklegast illir andar á ferðinni.
Þó að kolsýra í vínum hafi lengi verið talin galli eru heimildir um vínræktarsvæði sem framleiddu freyðivín af mikilli ástríðu. Þar má nefna svæði eins og Limoux í Suður- Frakklandi. Þar er talið líklegast að kólnandi veður að vetri til hafi stöðvað gerjun á vínum áður en gerjunarferlið var búið. Þegar fór að vora á ný og hitinn fór hækkandi lifnaði gerið við á ný og byrjaði að rífa í sig sykurinn sem hafi orðið eftir. Við þetta hefur orðið til kolsýra og þar af leiðandi freyðivín. En þó svo að fyrstu skriflegu heimildirnar séu síðan árið 1531 um freyðandi vín þá er nokkuð víst að fyrirbærið hafi alls ekki verið nýjasta nýtt það árið. Einhverjar vísbendingar eru til um að íbúar héraðsins hafi framleitt freyðivín viljandi á tímum Rómverja.
Kampavín verður til
Spólum nú aðeins áfram um nokkur ár eða til ársins 1662. Á þessum tíma eru freyðandi vín að verða mikill „hittari“ hjá enskum aðalsmönnum. En vandamálið á þeim tíma var að flöskurnar sem voru notaðar í framleiðslu freyðivína í Champagne voru mjög lélegar. Það var nokkuð algengt að flöskur væru að springa í neðanjarðargeymslum framleiðandanna. Oftar en ekki olli ein sprenging keðjuverkun sem gerði það að verkum að allt að 90% af uppskerunni endaði í gólfinu. Aftur fóru menn að vitna í hin illu öfl og fékk kampavín fljótt nafnið „le vin du diable“ sem þýðist einfaldlega á íslensku sem vín djöfulsins.
Bretinn, með allar sínar kolanámur gat leyft sér að framleiða gler í kolahituðum ofnum, ólíkt því sem Frakkar voru að gera í viðarhituðum ofnum. Úr varð mun sterkara gler sem þoldi þrýstinginn sem varð til í flöskunni mun betur. Á sama tíma uppgötvaði breskur vísindamaður að nafni Christopher Merret að ef menn bættu við sykri í fullgerjað vín hæfist gerjun að nýju. Uppgötvunin opnaði á þann möguleika að flytja vínið ókolsýrt til London og bæta einfaldlega smá sykri við – og voila!
Það má segja að það sé Englendingum að þakka að kampavín varð til. Þarlendir aðalsmenn voru sólgnir í freyðandi vín.
Og ekki nóg með það, heldur var það Englendingur sem fann upp aðferð til að stjórna betur kolsýringunni.
Hins vegar skulum við ekki taka neitt af Frökkum og sérstaklega ekki af Dom Perignon þar sem að það var hann sem setti meiri kröfur á gæði vínanna en þekktist. Það var að lokum til þess að kampavín varð jafn vinsælt og raun ber vitni.
Í dag mega freyðivín einungis bera nafnið kampavín (Champagne) ef vínin eru framleidd í Champagne-héraði.
Framleiðendur verða einnig að fylgja mjög ströngum reglum sem settar eru af CIVC (Comité Interprofessionnel du vin de Champagne). Auðvitað má ekki gleyma því að hið svokallaða terroir (jarðvegur, loftslag og aðkoma mannsins) hefur gríðarlega mikið að segja með útkomu vínsins.
Síðast en ekki síst eru það þrúgutegundirnar, sem spila stóra rullu í að aðgreina kampavínin frá freyðivínum.
Í dag eru sjö tegundir leyfðar þó svo að einungis þrjár spili langstærstu rulluna í kampavínsleiknum, en þær eru Pinot Noir, Chardonnay og Pinot Meunier.
Framleiðsla
Freyðivín verður til þegar kolsýru er þrýst í nokkurn veginn fullgerjað vín, hvort sem það er með náttúrulegum hætti eða með utanaðkomandi aðstoð. Uppskera berjanna, sem notuð eru til framleiðslu freyðivína, er oftast fyrr en uppskera berja „venjulegra“ vína. Það gerir að verkum að vínið er yfirleitt sýruríkara en annars, þó svo að auðvitað séu til undantekningar. Þegar grunnvínið er klárt eru nokkrar leiðir til að bæta kolsýrunni við:
- Méthode Traditionelle
- Fullklárað vín er sett í flöskur ásamt blöndu af fersku geri og sykri sem síðan er lokað, annað hvort með kork- eða stáltappa (tirage). Seinni gerjun fer af stað þegar gerið fer að éta sykurinn og við það verður til kolsýra. Flaskan er svo geymd í mislangan tíma (lágmark 15 mánuði í Champagne), eftir því sem reglur segja til um og hvaða útkomu víngerðarmaðurinn vill sjá. Að geymslu lokinni er flöskunni hvolft skáhalt til að leyfa dauða gerinu að safnast í hálsi flöskunnar (remuage), þegar allt gerið er búið að safnast þar fyrir er hálsinn snöggfrystur. Við þetta verður gerkubburinn harður og er flaskan opnuð og ýtir þrýstingurinn frá kolsýrunni kubbnum út (dégorgement). Síðan er sykri eða berjasafa bætt við vínið til að gera það sætara eftir vilja víngerðarmannsins (dosage).
- Dæmi: Kampavín, Cava og Crémant
- Méthode Charmat (Tank Method)
- Fullgerjað vín ásamt geri og sykri er sett í stóran stáltank sem heldur þrýstingi og lokað fyrir. Seinni gerjun hefst í tanknum og býr til bubblur í víninu. Freyðivínið er svo filterað eftir þörfum og sett á flöskur ásamt „dosage“ til að gera freyðivínið eins sætt og víngerðarmaðurinn kýs.
- Dæmi: Prosecco og Lambrusco
- Transfer Method
- Þessi aðferð svipar mikið til Méthode Traditionelle fyrir utan að flöskunum er ekki hvolft og hálsinn frystur til að losna við dauða gerið, heldur eru þær tæmdar í tanka, sem þola þrýsting og freyðivínið filterað þar áður en það er tappað á flöskur aftur.
- Dæmi: Þessi aðferð er oftast notuð fyrir óvenjulegar stærðir flaskna eins og t.d. 375ml eða 3L+
- Ancestral Method
- Hér er gamla góða aðferðin nýtt, þ.e.a.s. gerjun er stöðvuð með því að kæla niður vínið í nokkra mánuði. Vínið er síðan sett á flöskur þar sem gerjunin fær að klárast og kolsýran verður til. Þegar freyðivínið er svo klárt er það filterað með sömu aðferð og Méthode Traditionelle, en yfirleitt er ekki bætt við sykri (dosage).
Fyrstu tvær aðferðirnar eru langalgengastar enda falla prosecco, cava og kampavín undir þessa flokka.
Nú eru framleiddar um 2,5 milljarðar flaska af freyðivíni í heiminum á ári og trónir Ítalía á toppnum með 660 milljón flöskur (500 milljón af þeim flöskum koma frá Prosecco). Frakkland er skammt undan með um 550 milljón flöskur. Þýskaland, Spánn og Bandaríkin koma í kjölfarið og framleiða samtals 772 milljón flöskur og sjá þessar fimm þjóðir okkur fyrir um 80% af framleiddu magni freyðivína.
Flest freyðandi vín eru flokkuð eftir afgangs sykri í flöskunni eftir seinni gerjun þannig:
Brut Nature 0-3 g/l sykur
Extra Brut 0-6 g/l sykur
Brut 0-12 g/l sykur
Extra Dry 12-17 g/l sykur
Sec 17-32 g/l sykur
Demi-Sec 32-50 g/l sykur
Doux 50+ g/l sykur